Eldi og heilbrigði sláturdýra

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 19:14:41 (4867)

2002-02-18 19:14:41# 127. lþ. 79.10 fundur 505. mál: #A eldi og heilbrigði sláturdýra# (hækkun gjalds) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[19:14]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Boðskapur hæstv. landbrh. hér áðan var góður, um að bjart væri fram undan í atvinnulífi þjóðarinnar. Gott er að heyra þau orð af munni hæstv. ráðherra.

Ég vil taka undir önnur orð hæstv. ráðherra um hversu mikilvægt er að geta hlúð að þessari grein, sauðfjárræktinni, og helst að efla hana. Við höfum séð það undanfarin ár að hallað hefur heldur betur undan fæti. Sauðfé hefur fækkað jafnt og þétt í landinu og hafa menn jafnvel velt því fyrir sér hvort sá möguleiki væri fyrir hendi að þessi skepna sé að verða dýr í útrýmingarhættu og flokkist þá sem slík.

Vonandi mun okkur hins vegar takast að koma þessum afurðum á erlendan markað þannig að menn sækist eftir íslensku lambakjöti. Ég vona að svo muni einnig verða um íslenskt nautakjöt, sem margir segja að sé ágætt líka, og aðrar afurðir íslensks landbúnaðar. Ég tala nú ekki um ef svo gæti farið í framtíðinni að við færum að flytja út grænmeti eins og hæstv. landbrh. ræddi hér um í háleitri ræðu á dögunum.