Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 13:36:35 (4872)

2002-02-19 13:36:35# 127. lþ. 80.91 fundur 343#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[13:36]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Okkur þingmönnum ber stjórnarskrárbundinn réttur og skylda til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Mér sýnist að ekki sé vanþörf á varðandi hæstv. samgrh. og embættisfærslu hans gagnvart Landssímanum hf.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér þykir hæstv. ráðherra kotroskinn þegar hann kemur hingað og veifar vel unnu svari sem hann virðist ekki skilja sjálfur. Þetta svar gefur ekki tilefni til þeirrar niðurstöðu sem hæstv. ráðherra komst hér að í ræðustól.

Ég vil rifja upp fyrir hæstv. ráðherra að það er ekki lengra síðan en í gær að dósent við Háskóla Íslands taldi að hæstv. ráðherra hefði orðið uppvís að því að brjóta hlutafélagalög með því að leyna stjórn Landssímans ákveðnum upplýsingum um ákaflega óhefðbundnar þóknanir til stjórnarformanns Landssímans. Ég gef þannig lítið fyrir það þegar hæstv. ráðherra kemur hingað og talar um lög og veifar lögum.

Það sem skiptir máli, herra forseti, er að í svari ráðherrans kemur fram að ráðherrann, sem er í hlutverki hæstv. samgrh., er eini hluthafinn. Hann hefur rétt til ákveðinna upplýsinga samkvæmt lögum. Hann ber að vísu trúnaðarskyldu gagnvart hlutafélaginu en svo segir í svarinu að sú skylda gangi einkum út á það að hann megi ekki veita upplýsingar sem hann hefur fengið með þessum hætti ef þær geti skaðað hagsmuni félagsins.

Ef hæstv. samgrh. hefur rétt fyrir sér í þessu efni er það eingöngu vegna þess að hann er að leyna hér einhverjum upplýsingum úr starfslokasamningi við fyrrverandi forstjóra sem bersýnilega getur skaðað hagsmuni félagsins, sé það gert uppvíst. Hvað er það sem gæti skaðað hagsmuni félagsins? Jú, auðvitað ef verið er að veita þar enn einn óhefðbundinn bónusinn fram hjá því sem eðlilegt má teljast.

Ég vísa til þess sérkennilega samkomulags sem hæstv. samgrh. gerði eigin hendi við stjórnarformann Landssímans. Er eitthvað slíkt á ferli hér, herra forseti, sem ekki þolir dagsljósið?