Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 13:48:17 (4878)

2002-02-19 13:48:17# 127. lþ. 80.91 fundur 343#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), KVM
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Það eru ærin tilefni fyrir þessari umræðu. Það er ákaflega undarlegt þegar enginn má vita hver laun þeir menn hafa sem starfa hjá fyrirtækjum í eigu ríkisins. Það er ákaflega undarlegt að það megi ekki vera ljóst hvers konar samningar eru gerðir við það fólk. Er ekki öllum mönnum ljóst hvaða laun þingmenn hafa? Er ekki öllum mönnum ljóst hvaða laun kennarar hafa? Af hverju má ekki sama regla gilda um alla í samfélaginu? Það eru gerðir samningar, fólk er í launasamningum og verkalýðsbaráttu og öðru. Svo rís allt í einu upp einhver hópur manna í þessu landi sem getur verið á einhverjum lokuðum samningum sem enginn veit hvað bera í sér. Auðvitað þarf að opna þetta kerfi miklu meira hjá okkur en er. Þetta skapar mikla tortryggni. Ef þetta væri allt saman opið væri fólk kannski ekki að velta þessu fyrir sér. Þá væru menn ekki sífellt að koma fram með spurningar sem kannski eru til góð og gild svör við. En þegar þagað er þá er það til að skapa tortryggnina. Það skulum við hafa í huga.

Að lokum langar mig til að spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi ekki tekið eftir því þegar ég bað um orðið áðan á undan hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur. (Gripið fram í.) Röðin á að vera rétt.