Þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 13:57:15 (4884)

2002-02-19 13:57:15# 127. lþ. 80.94 fundur 346#B þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar frá 28. maí 1999 er fáorð um Evrópumál eins og reyndar fleira. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Samskiptin við Evrópusambandið verði áfram treyst á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og annarra samninga sem Ísland á aðild að. Áfram verði náið fylgst með þróun Evrópusambandsins með framtíðarhagsmuni Íslands að leiðarljósi.``

Við þetta er svo gjarnan bætt alkunnri setningu um að aðild að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar eða ekki á dagskrá á þessu kjörtímabili.

Í apríl árið 2000 lagði hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson fram viðamikla skýrslu um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi. Þar segir m.a. um EES-samninginn, með leyfi forseta:

,,EES-samningurinn tryggir tengingu við þá þætti Evrópusamstarfsins þar sem best hefur tekist til. Það má hins vegar telja til kosta hans að ýmsir þættir Evrópusamstarfsins, sem ýmist eru ekki ýkja eftirsóknarverðir eða hreinlega ganga gegn íslenskum hagsmunum, standa utan samningsins. Ber þar af sjónarhóli Íslands fyrst að nefna sjávarútvegsstefnuna.``

Síðan segir í niðurlagsorðum almennrar umfjöllunar um EES-samninginn:

,,EES-samningurinn gefur svigrúm til þess að standa utan verulegs hluta Evrópusamstarfs. Það er því verði keypt að aðgangur er takmarkaður að stofnunum sem móta framtíðarstefnu og taka ákvarðanir um rekstur. Á því sviði, sem samningurinn nær til, hefur afraksturinn undanfarin sex ár reynst góður.``

Þetta segir þar. Það er athyglisvert og umhugsunarefni, herra forseti, að höfundur eða ábyrgðaraðili þessa texta, hæstv. utanrrh., er sami maðurinn og nú að undanförnu hefur í ræðum og fjölmiðlaviðtölum gerst ærið tíðrætt um hluti eins og þá hvernig EES-samningurinn reyni á þanþol stjórnarskrárinnar, að því megi halda fram með góðum rökum að aðild að ESB tryggi fullveldi Íslands betur en EES gerir, að sjávarútvegsstefna ESB sé mögulega ekki lengur hindrun í vegi aðildar og hversu alvarlegt mál áhuga- eða viljaleysi Evrópusambandsins á því að breyta EES-samningnum í tengslum við stækkun Evrópusambandsins sé þessum sama samningi og ráðherra fór svo lofsamlegum orðum um í skýrslu sinni fyrir tæpum tveimur árum. Loks lætur ráðherra að því liggja nú fyrir rúmri viku síðan að á allra næstu vikum verði farið fram á formlegar viðræður við Evrópusambandið um hvorki meira né minna en framtíð Evrópska efnahagssvæðisins, að beðið sé eftir því að Norðmenn geri upp hug sinn. En áður hefur hæstv. utanrrh. sagt aðspurður um hvers vegna Norðmenn vilji fara sér hægar en Íslendingar að ekki sé víst að um sameiginlega málaleitan verði að ræða.

Á sama tíma og hæstv. utanrrh. ræðir linnlaust um erfiðleika, vandamál, versnandi stöðu, möguleg stjórnarskrárbrot og fullveldisfórnir, kannast hæstv. forsrh. ekki við nein vandamál og segist ekki kannast við að neitt sé að EES-samningnum. Hann segir okkur að aðspurður hafi hæstv. utanrrh. ekki getað nefnt nein dæmi þar um. Lengst hefur forsrh. gengið með því að tala um að þörf geti verið á smávægilegum prófarkalestri.

Hver er þá hin formlega staða málsins, herra forseti? Hvaða ákvarðanir hefur ríkisstjórnin tekið, ef einhverjar, um að fara í formlegar samningaviðræður o.s.frv.? Það er algerlega óumflýjanlegt að hin formlega staða og allar pólitískar ákvarðanir um málsmeðferð liggi fyrir.

Þó að leiðarahöfundi Morgunblaðsins hafi tekist það rökfræðilega og stílfræðilega afrek að telja þá utanrrh. og forsrh. í aðalatriðum sammála, get ég ekki lesið það út úr yfirlýsingum þeirra í austur og vestur undanfarna daga. Ég hef því lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. utanrrh.:

1. Hefur ríkisstjórnin ákveðið að óska eftir formlegum samningaviðræðum við Evrópusambandið um efnislegar breytingar á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið? Ef svo er, hvenær var það gert og hvernig verður háttað samráði við utanrmn. Alþingis?

2. Eru líkur á að Íslendingar og Norðmenn verði sammála um inntak viðræðna við Evrópusambandið um breytingar eða uppfærslu á EES-samningnum?

3. Til hvers er utanrrh. að vísa sérstaklega þegar hann talar um nauðsyn þess að fá viðræður við Evrópusambandið um framtíð Evrópska efnahagssvæðisins? Telur ráðherra framtíð samningsins í óvissu?

4. Hyggst ríkisstjórnin meðhöndla óskir um breytingu á bókun 9 í tengslum við stækkun Evrópusambandsins með það að markmiði að viðskiptakjör Íslendinga versni ekki, sem sjálfstætt mál eða sem hluta af heildarviðræðum um EES-samninginn eða framtíð Evrópska efnahagssvæðisins?

5. Hefur verið lagður grunnur að því að nýta sérstaklega formennskutíð Dana í Evrópusambandinu á (Forseti hringir.) síðari hluta þessa árs til að vinna hagsmunamálum Íslands brautargengi?