Þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 14:12:39 (4888)

2002-02-19 14:12:39# 127. lþ. 80.94 fundur 346#B þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Enn á ný tökum við til við að ræða stórmál þar sem flestum ræðumönnum gefst rúmur tími til að standa upp og setjast. Ég vildi aðeins víkja því að forseta vorum hvort hann vildi ekki athuga að fara bil beggja um utandagskrárumræður þannig að mál sem mikils eru metin verði afgreidd með þeim hætti að framsögumenn og hæstv. ráðherra sem svarar fengju eins og 10 mínútur og aðrir 5 mínútur. Upplýst yrði með góðum fyrirvara um slíka umræðu og gæfist þá þingmönnum meira tækifæri til að segja eitthvað af viti.

Það sætir ekki tíðindum þótt aðalforráðamenn þessa þjóðfélags hnotabítist um innanlandsmál og um það höfum við mörg vitni. En skörin færist upp í bekkinn þegar menn taka að ræða sín á milli um utanríkismál, eins og hér hefur átt sér stað um EES-samninginn.

Það er ekki að undra þótt hæstv. utanrrh. sé með böggum hildar vegna þessa samnings, vegna þeirra breytinga sem nú eiga sér stað. En hæstv. forsrh. leyfir sér að fara þeim orðum um þennan samning að þar kunni að vera ákvæði um rottueitur og annað sé ekkert að samningnum nema það finnist kannski í honum stafavillur og þá megi svo sem leita að þeim.

Svo eru þeir kallaðir fyrir til að spyrja þá um hvort ágreiningurinn sé mikill og þá svarar utanrrh. að þeir hafi hist, ræðst við og allt farið vel. Hæstv. forsrh. kemur síðan í sjónvarp þar sem hann prísar samvinnuna. Það er auðvitað skiljanlegt að þeim hafi komið vel saman á þessum fundi ef umræðuefnið hefur verið aðferðir til að útrýma meindýrum. En svona getum við ekki hagað okkur. Síst forráðamenn okkar í viðkvæmum utanríkismálum.