Þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 14:14:50 (4889)

2002-02-19 14:14:50# 127. lþ. 80.94 fundur 346#B þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Um margra ára skeið hefur farið fram mikil umræða um svokölluð Evrópumál. Ótal skýrslur hafa verið gerðar um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu, hvað það hefði í för með sér fyrir Íslendinga að gerast þátttakendur í hinu nýja Evrópusambandsríki með sameiginlegri mynt, her og viðskiptasamningum.

Fyrir þá sem hafa lagt sig eftir þessari umræðu er augljóst hvert stefnir í þróun Evrópusambandsins. Þjóðríkið víkur fyrir nýju miðstýrðu ríki sem þó mun leitast við að tryggja sjálfsstjórn héraða og svæða á nýjum forsendum. Þarna sjá ýmsir Evrópusinnar hér á landi sóknarfæri, að Íslendingar skapi sér sess sem hérað í hinu nýja Evrópusambandsríki. Sannast sagna fannst mér það vera virðingarvert sjónarmið að halda því fram að við eigum að gerast hluti í hinu evrópska stórríki með þeim kostum og göllum sem því fylgja og horfa fram hjá því hvert framlag okkar yrði inn í báknið í peningum talið og hvaða breytingar yrðu á sjálfstæði þjóðarinnar og yfirráðum okkar yfir auðlindum sjávar.

Ég er hins vegar andvígur þessu sjónarmiði, einfaldlega vegna þess að ég tel það ekki þjóna hagsmunum Íslendinga. Ég er sannfærður um að okkur yrði betur borgið án þess að einangra okkur innan Evrópu og án þess að gerast Hawaii-eyjar Evrópusambandsins.

Stjórnmálaflokkar þurfa að tala skýrt. Það gerum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Það gerir formaður Samfylkingarinnar og sama gildir um Sjálfstfl. Framsfl. hefur hins vegar lagst í innhverfa íhugun í þessu máli. Það væri í rauninni góðra gjalda vert ef svo óheppilega vildi ekki til að formaður flokksins er jafnframt utanrrh. þjóðarinnar. Þar með liggjum við öll með honum nauðug viljug í endalausri íhugun um hvað okkur eigi að finnast. Ef menn vilja ganga í Evrópusambandið þá eiga menn að segja það. Ef ekki þá á einnig að segja það skýrt og afdráttarlaust og vinna síðan út frá þeirri forsendu. Sú tíð er löngu liðin að menn geti leynt sér á bak við endalausa íhugun og athugun. Þess hlýtur að vera krafist að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar komi hreint fram í þessum málum.