Þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 14:21:39 (4892)

2002-02-19 14:21:39# 127. lþ. 80.94 fundur 346#B þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[14:21]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Samfylkingin reynir að halda því fram að sjálfstæðismenn vilji ekki taka þátt í Evrópuumræðunni. Það er alrangt. Við höfum tekið þátt í þessari umræðu en við höfum að vísu ekki komist að þeirri undarlegu niðurstöðu sem Samfylkingin hefur komist að, eða hefur ekki komist að því að hún er að leita að niðurstöðunni núna mörgum mánuðum eftir að hún hélt sinn síðasta landsfund.

Virðulegi forseti. EES-samningurinn hefur verið okkur hagstæður, greitt okkur leið að mörkuðum, fært okkur umtalsvert fjármagn og þekkingu inn í þjóðarbúið, leitt til aukins frjálsræðis og nútímalegri stjórnarhátta í atvinnulífinu, stuðlað verulega að stöðugleika í íslensku efnahagslífi, eflt neytendavernd, umhverfisvernd, auðveldað okkur aðlögun að breytingum á sviðum fjarskipta og samgangna og samstarf íslenskra fyrirtækja í Evrópu. Á hinn bóginn standa utan samningsins ýmsir þættir Evrópusamstarfsins sem eru ekki eftirsóknarverðir eða ganga hreinlega gegn okkar eigin hagsmunum.

Þetta, virðulegi forseti, er meginniðurstaða hinnar ítarlegu skýrslu hæstv. utanrrh. um stöðu Íslands í Evrópusamstarfinu og var áréttað af hæstv. utanrrh. í ræðunni áðan. Hvað segir þetta okkur? Gefur þessi skýrsla þær staðreyndir til kynna að við þurfum að hraða okkur við að endurskoða þennan samning eða opna samning sem hefur reynst okkur svona vel? Auðvitað ekki. Meginmarkmið okkar eru eins og jafnan, að tryggja að hann gegni áfram hlutverki sínu líkt og hann gerir svo ágætlega nú.

Talað er um að EFTA-stoð samningsins hafi veikst. Þó er hún sterkari en talið var að hún yrði við gerð EES-samningsins vegna þess að þá var gert ráð fyrir aðild Noregs að Evrópusambandinu.

Menn spyrja hvað muni gerast á viðskiptasviði okkar með stækkun Evrópusambandsins til austurs? Því er til að svara að auðvitað verða hin nýju ESB-lönd þá hluti af EES-svæðinu sem er okkur vitaskuld í hag. Hins vegar er fiskurinn utan samningsins. Hagsmunir okkar eru tryggðir í sérstakri bókun með samningnum. Sjávarútvegshagsmunir okkar í viðskiptum við hinar nýju þjóðir eru þess utan sáralitlir. En veltum fyrir okkur stöðunni ef hægt væri að sýna fram á að viðskiptakjör okkar við ESB versnuðu við stækkunina. Er ekki grundvallarhugsunin með innri markaðnum sú að auðvelda þar viðskiptin, stuðla að því að þau vaxi, eða ætlar Evrópusambandið að búa til fyrirkomulag þar sem viðskipti á hinu nýja og stækkaða Evrópuska efnahagssvæði yrðu í heild sinni minni en þau voru áður eða gætu orðið? Auðvitað ekki. Það er líka (Forseti hringir.) nauðsynlegt að minna á að Ísland og aðildarríki Evrópusambandsins eru aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Evrópusambandinu ber þess vegna skylda til að leysa þessi mál í samræmi við það.