Þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 14:24:08 (4893)

2002-02-19 14:24:08# 127. lþ. 80.94 fundur 346#B þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[14:24]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Í samningum við önnur lönd verða menn að hafa ákveðna sýn á það hverju ætlunin er að ná fram og hvað menn eru reiðubúnir til að láta af hendi. Jafnmikilvægt er að hafa fulla vitund um hvað ekki er falt og hvað ekki verður látið af hendi í slíkum samningum.

Stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er skýr. Fullveldi Íslands og náttúruauðlindir okkar til lands og sjávar verða ekki framseldar, en sjálfsagt er að endurskoða reglulega stöðu einstakra þátta í gagnkvæmum samningum á trúverðugan hátt.

Því er haldið fram að full aðild að Evrópusambandinu sé svo góð fyrir hinar dreifðu byggðir, þá komi svo miklir byggðastyrkir. En hvernig er þetta? Ísland mun í heild sinni þurfa að greiða nokkrum milljörðum kr. meira til Evrópusambandsins en það mun fá til baka ef það verður fullgildur aðili. Ef þjóðin vill greiða meira í búsetustyrki getur hún gert það beint án þess að senda peningana fyrst til Brussel og láta hirða þar prósentur og láta svo restina koma skerta til baka í byggðastyrki.

Nýjasta dæmið í Brussel-dekrinu er það að setja á á íslenska sauðfjárbændur sömu reglur og gilda um sauðfjárbúskap t.d. í Hollandi eða Belgíu, eins og við værum þegar orðnir aðilar að ESB. Þetta eru reglur sem ganga jafnvel lengra í miðstýringu og skriffinnsku en þeir sjálfir hafa vogað sér að setja. Komist þessar Brussel-reglur Framsóknar á mun það reynast íslenskum sauðfjárbændum þung raun, nánast eins og náttúruhamfarir.

Herra forseti. Vandinn er sá að sérstaklega í ráðuneytum Framsfl. virðist gleymast að við erum ekki gengin í ESB og þar á bæ eru menn þegar farnir að vinna eins og að innganga sé nánast formsatriði.

Herra forseti. Að mínu mati er Evrópuvagn Framsóknar á hættulegri leið, hættulegri ferð með Ísland inn í Evrópusambandið. Það þarf að ræða og það þarf að stöðva.