Þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 14:26:13 (4894)

2002-02-19 14:26:13# 127. lþ. 80.94 fundur 346#B þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[14:26]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Það er að sjálfsögðu ekki við hæstv. utanrrh. að sakast þó að honum ynnist ekki tími til að gera tæmandi skil þessu flókna máli og mörg hefðum við kosið að fá til þess aðeins lengri tíma að skiptast á skoðunum um þetta stóra mál.

Umræðan hefur skýrt stöðuna að nokkru leyti. Það markverðasta, að ég tel, sem fram hefur komið er að ríkisstjórnin hefur ekki óskað eftir formlegum viðræðum við Evrópusambandið um breytingar á EES-samningnum. Nú liggur það fyrir og það kom reyndar ekkert fram, hvorki í máli utanrrh. né forsrh., um að til stæði á næstunni að taka slíka ákvörðun.

Herra forseti. Það er ástæða til að leggja á það áherslu að það er óæskilegt að þessi mál séu langtímum saman í viðvarandi óvissu, svo ekki sé sagt uppnámi. Það skapar öryggisleysi og það torveldar mönnum að taka ákvarðanir og gæta hagsmuna sinna hafandi sæmilega fast land undir fótum. Það þýðir ekki að menn þurfi að loka augum og eyrum. Það þýðir ekki, eins og ranglega er haldið fram, að menn geti ekki eftir sem áður fylgst með. Það þýðir ekki að ekki sé sjálfsagt að ræða málin. En við reynum að hafa einhverja stefnufestu ríkjandi á þessu sviði þannig að menn viti til einhvers tíma í senn að hverju þeir gangi.

Herra forseti. Ég sé ekki að neitt nýtt hafi komið fram sem breyti í grundvallaratriðum því mati að það er ekki hagstætt hagsmunum Íslendinga að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Við fórnum of miklu í skertu sjálfstæði, sjálfsákvörðunarrétti í sjávarútvegsmálum, sjálfstæðum samningsrétti. Við glötum möguleikum á sjálfstæðri efnahagsstjórn. Aðild yrði áfall fyrir landbúnað og sjávarútveg og aðgangseyririnn sjálfur yrði ansi mikill, um tugur milljarða kr. eða svo. Í því ljósi, herra forseti, eigum við að gæta hagsmuna okkar út frá því að eins og málin standa er aðild að Evrópusambandinu ekki fýsilegur kostur.