Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 14:33:28 (4896)

2002-02-19 14:33:28# 127. lþ. 80.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv. 13/2002, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Frsm. sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, á þskj. 808 ásamt brtt. á þskj. 809.

Með þessu frv. sem hér er verið að ræða er lagt til að heimild núgildandi laga til að varpa fyrir borð afla sem er sýktur, selbitinn eða skemmdur á annan hátt verði felld brott. Þess í stað er lagt til að kveðið verði skýrt á um að hirða skuli og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Nefndin fór yfir þetta mál og lagði til breytingar. Hún telur reyndar að þær breytingar sem frv. felur í sér séu til þess fallnar að auðvelda allt eftirlit með brottkasti og ætti því að öllu jöfnu að leiða til minna brottkasts þegar fram í sækir.

Nefndin leggur til tvær breytingar á frv. Í fyrsta lagi er lagt til að orðið ,,sýktur`` í 3. efnismgr. 1. gr. verði fellt brott þar sem ekki þykir ástæða til að nefna sýktan fisk sérstaklega enda hlýtur hann að flokkast til skemmds afla. Í öðru lagi er lagt til að óundanþægt ákvæði frv. um að aðeins sé heimilt að nýta selbitinn og skemmdan afla til bræðslu verði fellt brott en þess í stað verði ráðherra gert að setja reglur um leyfilega nýtingu aflans. Ekki þykir rétt að kveða á um að þessi afli skuli í öllum tilvikum bræddur þar sem verið getur að í sumum tilvikum megi nýta hann á arðbærari hátt.

Nefndin fjallaði nokkuð um möguleika á vinnslu aukaafurða um borð í fiskiskipum. Nefndin hvetur til þess að áfram verði unnið að því að finna hagkvæmar leiðir til að nýta svokallaðar aukaafurðir um borð í skipum. Talsvert hefur áunnist hvað þetta áhrærir, sérstaklega varðandi þorskhausa sem hefur komið fram að frystiskipin hirða og nýta núna í vaxandi mæli og það er auðvitað æskilegt. Hins vegar er ljóst að það má gera enn þá betur ef markaðsaðstæðurnar kalla eftir því, og örugglega er áhorfsmál hvort ekki verði að líta á þennan þátt sérstaklega varðandi lögin þegar fram í sækir.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Undir nál. rita hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, form. og frsm., Guðmundur Hallvarðsson, Vilhjálmur Egilsson og Helga Guðrún Jónasdóttir og með fyrirvara hv. þm. Jóhann Ársælsson, Svanfríður Jónasdóttir og Guðjón A. Kristjánsson. Árni Steinar Jóhannsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.