Siðareglur fyrir alþingismenn

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 16:08:42 (4907)

2002-02-19 16:08:42# 127. lþ. 80.9 fundur 30. mál: #A siðareglur fyrir alþingismenn# þál., LB
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[16:08]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Á dagskrá þingsins hafa verið tvö mál sem lúta að siðareglum, annars vegar siðareglum í stjórnsýslunni, þ.e. hjá framkvæmdarvaldinu, og hins vegar siðareglum fyrir alþingismenn, þ.e. löggjafarvaldinu.

Ég vil byrja á að segja að þær hugmyndir sem hér eru settar fram eru af hinu góða. Það er kannski dálítið sorglegt, í ljósi þeirrar umræðu sem hefur farið fram um nokkurra daga skeið um stjórnsýsluna og þá gagnrýni sem á hana hefur komið, að hér skuli ekki vera fleiri þingmenn. Það væri kannski fróðlegt að vita, virðulegi forseti: Hve margir þingmenn eru í húsinu?

(Forseti (ÍGP): Samkvæmt þeim tölum sem forseti hefur eru 17 þingmenn í húsinu.)

Ég þakka fyrir. Það hefði verið gaman að fá nokkra þingmenn stjórnarliðsins til að taka þátt í þessari umræðu, ekki endilega vegna þess að þeir treysta sér ekki til þess heldur til að skiptast á skoðunum um þessar hugmyndir, einkanlega vegna þess að þeir koma til með að ráða mestu um hvort hugmyndir eins og þessar fái einhvern framgang í þinginu. Það er einfaldlega þannig að meiri hlutinn ræður og þess vegna hefði verið gott að geta skipst á skoðunum við þingmenn stjórnarmeirihlutans og heyra hugmyndir þeirra um þessi mál.

Ég vil hins vegar segja, virðulegi forseti, við þessa umræðu, að þó að hér séu settar fram hugmyndir um siðareglur er ég ekki þeirrar skoðunar að hægt sé að negla niður alla hluti. Það er ekki hægt að setja skýrar reglur um alla hluti í þessum efnum. Ég tel þó að menn verði að setja niður meginreglur og vinna síðan út frá þeim. Auðvitað eru hugmyndir um siðareglur, eins og hér eru til umræðu, fyrst og fremst settar fram vegna þess að reynslan hefur kennt okkur að valdið er vandmeðfarið.

Hér eru settar fram hugmyndir um að setja fram reglur í því skyni að tryggja að vel sé farið með valdið. Þeir sem setja á reglur samkvæmt þessu eru fyrst og fremst opinberir starfsmenn og alþingismenn og í þeim skilningi þjónar almennings. Þrátt fyrir að flestir séu þannig gerðir að þeir vilji vinna eins vel þeim er kostur er ég sannfærður um að það gæti verið mörgum þægilegt að hafa tilteknar reglur við að styðjast.

Með þeim hugmyndum sem hér eru settar fram er því ekki haldið fram að allir sem standa í þessum störfum séu jafnframt í svindli, langur vegur þar í frá. Með þessum tillögum er fyrst og fremst bent á að valdið er vandmeðfarið. Þessi sjónarmið hafa kannski fengið aukið vægi í umræðunni undanfarna daga, einkum í umræðunni um svokallað símamál eða Landssímamál, sem hefur reyndar birst í svo mörgum myndum að það væri til að æra óstöðugan að reyna að fara yfir það. En það er dálítið sérstakt við þá tilteknu umræðu að menn hafa ekki aðgang að upplýsingum. Menn hafa reynt að skjóta sér á bak við mjög undarleg ákvæði og túlkað þau á þann veg að ekki þurfi að tefla upplýsingum fram í umræðunni, þ.e. menn skjóta sér á bak við leyndina. Maður hlýtur að spyrja sig: Eru hagsmunir tiltekinna fyrirtækja, sem að mestu leyti eru í eigu ríkisins, meira metnir en möguleikar þingmanna á að veita það aðhald sem þeim er ætlað að veita? Það hefur komið fram í þessari umræðu, ef við notum hana sem dæmi til þess að reyna að draga það fram, að ekki hafa allir haft aðgang að þessum upplýsingum. Þetta hefur smátt og smátt komið í ljós. Menn sjá að þetta aðhald er nauðsynlegt til að sjá til þess að menn fari rétt með vald sitt.

Það kom fram í umræðunni fyrr í dag að það er dálítið sérstætt að í tilteknum tilvikum skuli menn bera fyrir sig lögum eins og hlutafélagalögum og halda því fram að þau komi í veg fyrir að hægt sé að veita upplýsingar af því að þær lúti að hagsmunum fyrirtækisins. Þess á milli taka menn valdið út úr fyrirtækinu og gera prívat sjálftökusamninga fram hjá stjórn fyrirtækisins. Þá eiga hlutafélagalögin ekki við. Ég óttast þetta. Ég viðurkenni að í einstaka tilvikum getur verið nauðsynlegt að tiltekin málefni fari leynt. En menn þurfa alltaf að vega og meta hvort hagsmunir af því að veita aðgang að upplýsingum, hagsmunirnir af því að þingmenn geti veitt eðlilegt aðhald, séu meiri eða minni en hagsmunir viðkomandi fyrirtækja. Í vafatilvikum er ég sannfærður um að skýra beri slík leyndarákvæði þröngt.

Hér var nefnd fyrirspurn frá hv. flm. beggja þessara mála, sem ég hef leyft mér að fjalla um saman, fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Henni var svarað á þann hátt að henni kæmu þessar upplýsingar ekki við. Þegar maður skoðar þær spurningar sem þar voru settar fram, t.d. um hvort tiltekin einkavæðing væri hafin, um tilraun til sölu þegar starfslokasamningur var gerður. Þetta er spurningin. Svarið sem kemur er að vegna hlutafélagalaga komi þetta þingmönnum ekkert við. Það er fyrst og fremst, virðulegi forseti, verið að gera --- ég veit ekki það var orðað hér --- ekki verið að gera lítið úr þinginu heldur er ekkert gert úr þinginu.

Ástæðan fyrir því að við skiptum ríkisvaldinu í þrennt, í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, er fyrst og síðast sú að ekki safnist um of mikið vald á eina hendi. Löggjafarvaldinu er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, dómstólum líka. Dómstólum er síðan ætlað að hafa eftirlit með löggjafarvaldinu. Af hverju er þetta sett upp með þessum hætti? Jú, til að tryggja aðhaldið. Menn hafa lært það og vita að valdið er vandmeðfarið.

Hér eru hugmyndir af sama meiði. Hér er fyrst og fremst verið að reyna að setja fram leiðbeinandi reglur þessu til viðbótar. Kjarninn er hins vegar sá að valdið er vandmeðfarið. Við þurfum að geta veitt tiltekið aðhald. Ég verð að ítreka, virðulegi forseti, það sem ég sagði í upphafi máls míns --- ég sé að tími minn er á þrotum --- að það hefði getað orðið skemmtileg umræða og spennandi að ræða við fulltrúa meiri hluta eða þá sem styðja ríkisstjórnina sem nú situr, fulltrúa meiri hlutans á þingi. Það hefði verið gaman hefðu þeir hv. þm. komið að þessari umræðu og sett fram hugmyndir sínar vegna þess að meiri hlutinn ræður því á endanum hvort þessar hugmyndir verða að veruleika eða ekki.