Siðareglur fyrir alþingismenn

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 16:17:16 (4908)

2002-02-19 16:17:16# 127. lþ. 80.9 fundur 30. mál: #A siðareglur fyrir alþingismenn# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[16:17]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni till. til þál. um siðareglur fyrir alþingismenn sem er alveg eins og sú hin fyrri, sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talaði fyrir áðan, allrar athygli verð því að þingmenn allra lýðræðisþjóða þekkja auðvitað vel umræðu um meint hagsmunatengsl þeirra í ýmsum málum sem þingmönnum er gert að fjalla um. Auðvitað finnst þingmönnum eðlilega það þung byrði að vera borin á brýn einhver hagsmunatengsl sem kannski er ekki fótur fyrir. En þá er líka bara eitt ráð fyrir þingmenn og það er að til staðar séu einhvers konar reglur sem gera það að verkum að störf þeirra eru ekki undirorpin neinni tortryggni.

Þingmenn hér á landi þekkja allir til slíkra tilfinninga. Mér þykir gagnlegt að sjá í greinargerð með þáltill. gerða grein fyrir þeim reglum sem gilda í danska og sænska þinginu og mér þykir mjög athyglisvert í því sambandi að þar hafa verið settar fram reglur sem þingmönnum er í sjálfsvald sett hvort þeir gangast undir eða ekki. Það þarf ekki að grufla lengi í huga sér eftir svari við spurningunni: Hvað ætli almenningur hugsi um þá sem ekki gangast undir reglurnar? Ég lýsi því yfir eins og kemur reyndar fram í greinargerðinni að samkvæmt upplýsingum frá sænska þinginu munu það vera 295 af 349 þingmönnum sem hafa undirgengist þær reglur þannig að það er gífurlega mikill meiri hluti og segir það auðvitað sína sögu.

Mér þykir annað gott við þessa tillögu. Hún er fjarskalega opin þannig að hún segir ekki meira en svo að nefndin, sem ég ímynda mér að væri þá forsn. sem mundi trúlega fjalla um þessa tillögu, mundi geta sett eða mótað slíkar reglur og þá í samráði við breiðan hóp þingmanna. Það væri vel þess virði að þingmenn úr öllum flokkum, af báðum kynjum og á öllum aldri gætu komið að þeirri mótun. Síðasta greinin í greinargerðinni um mótun siðareglnanna er mér því mjög að skapi.

Síðan held ég að það sé alveg þess virði að ræða um þá hluti sem hér hefur verið hreyft, þ.e. hvernig þingmenn helga sig starfi sínu. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir talaði áðan að við fengum heimsókn á síðasta ári, ef ég man rétt, frá þingmönnum þýska þingsins og þá kom í ljós þegar við fórum að ræða um reglur og það form sem er á starfinu þar að þar eru þingmenn sektaðir háum sektum ef þeir eru ekki mættir til funda. Þeir verða að vera við atkvæðagreiðslur í þinginu og ef þeir hafa ekki löglega boðaða fjarvist þá liggja við því fésektir. Það er því greinilegt að þjóðþing beita ýmsum aðferðum við að halda þingmönnum sínum við störfin.

Ég vil loks taka undir lokaorð greinargerðarinnar í tillögunni sem hér var fylgt úr hlaði á ágætlega greinargóðan hátt af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, en þar segir, með leyfi forseta: ,,Telja verður þó að skýrar leiðbeinandi reglur styrki störf þingmanna og auki trúnað og traust almennings.``