Siðareglur fyrir alþingismenn

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 16:28:48 (4910)

2002-02-19 16:28:48# 127. lþ. 80.9 fundur 30. mál: #A siðareglur fyrir alþingismenn# þál., LB
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[16:28]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að bæta því við það sem kom fram í máli mínu fyrr að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er þingreynd og hefur starfað hér um nokkuð langt skeið og það eru fáir ef nokkrir þingmenn sem hafa í gegnum tíðina, a.m.k. hvað varðar svona langan tíma, lagt jafnmikið á sig til þess að reyna að styrkja þingið. Ég lít svo á að þær hugmyndir sem hér eru settar fram séu fyrst og fremst settar fram í því skyni að styrkja þingið, að styrkja trúverðugleik þingsins og efla frumkvæði þingsins að því er varðar almenna umræðu í samfélaginu. Því að þingið hefur að mínu mati misst mjög stöðu sína í því og kannski að stórum hluta orðið --- ég veit ekki alveg hvernig á að orða það --- framkvæmdarvaldsþing, þ.e. menn eru uppteknir af því að koma í gegnum þingið einhverjum hugmyndum sem fæðast hjá embættismönnum og ráðherrum. Þetta er sá veruleiki sem við búum við og það er kannski ekki síst okkur sjálfum að kenna sem hér erum, þ.e. að við skulum ekki reyna að styrkja þingið. Í fyrsta lagi með því að þingið sýni aukið sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu, sem ég held að sé að verða alger nauðsyn ef ekki á að halla enn frekar undan fæti hjá þinginu, hvernig sem það er nú hægt, og reyni með þeim hætti að styrkja sig. Í öðru lagi að reyna að styrkja sig með því að hafa aukið frumkvæði í hinni almennu pólitísku umræðu. Þetta held ég að sé alveg nauðsynlegt fyrir þingið að takast á hendur og reyna að marka sér þann sess. Ef það gerist ekki þá mun náttúrlega smám saman draga enn frekar úr vægi þess og það held ég að sé eitthvað sem ekki má gerast.

Af því að ég nefndi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur má kannski nefna það líka að fáir ef nokkrir hafa verið jafnmiklir talsmenn þess að þingið setji á fót sínar eigin rannsóknarnefndir, þ.e. þegar upp kunna að koma mál, að þingið setji á fót sínar eigin nefndir og reyni að fara ofan í þau mál með sjálfstæði og ábyrgð og komast að einhverri niðurstöðu en ekki að þiggja niðurstöður af verkum annarra. Allt er þetta að mínu viti til þess fallið að reyna að styrkja þingið, efla það og treysta það í sessi. Það er kannski ekki síst af þeim ástæðum sem ég sakna þess mjög að fulltrúar meiri hlutans á hinu háa Alþingi skuli ekki taka þátt í þessari umræðu. Með því er ég þó ekki að segja að þeir hafi ekki áhyggjur af þinginu heldur hitt að sjónarmið þeirra birtast ekki í umræðunni sem ég held þó að væri af hinu góða.

Þar sem ég á sæti í hv. allshn. mun ég beita mér fyrir því að málið fari sem víðast og ég mun beita mér fyrir því að hv. forsn. tjái sig um málið, þó að hún hafi komið sér upp einhvers konar reglu um að hún fjalli ekki um mál, a.m.k. ekki ef þau koma frá stjórnarandstöðunni. Ég mun því beita mér fyrir því að hv. forsn. taki á þessu tiltekna máli.

En ég vildi aðeins bæta inn í þá umræðu sem hér hefur farið fram að þetta mál er fyrst og fremst sett fram í því skyni að styrkja þingið, efla það, efla sjálfstæði þess í störfum sínum og efla frumkvæði þess í almennri umræðu í samfélaginu sem því miður hefur færst út úr þinginu og farið ekki síst í fjölmiðla og víðar og hjá tilteknum hagsmunasamtökum þar sem þingið hefur setið eftir.

Þingið má ekki verða einhvers konar viðbragðaumræðustofnun, þ.e. ef eitthvað kemur upp í samfélaginu, þá séu viðbrögð kölluð hér fram, heldur þarf að tryggja að miklu meira frumkvæði sé í umræðunni og menn séu að setja fram hugmyndir, menn séu að skiptast á skoðunum en sitji ekki uppi með það, virðulegi forseti, eins og staðan er nú að hér er verið að ræða grundvallarmál sem lagt er fram í því skyni að styrkja þingið og við tölum hér að mestu leyti því miður fyrir tómum sal.