Átak til að auka framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 16:57:49 (4916)

2002-02-19 16:57:49# 127. lþ. 80.11 fundur 116. mál: #A átak til að auka framboð á leiguhúsnæði# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[16:57]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í tilefni af orðaskiptum sem áttu sér stað á milli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Péturs Blöndals um húsaleigubæturnar, staðhæfi ég að húsaleigubætur eru einhver þýðingarmesti stuðningur við fólk á leigumarkaði. Miðað við kenningu hv. þm. Péturs Blöndals --- ekki hæstv. eins og hann gerði að umtalsefni hér fyrir stundu --- mætti í raun halda því fram að vaxtabætur hefðu þær afleiðingar að vextir hækkuðu. Þetta er svipuð kenning. Ef það er þannig að öll úrræði til að hafa áhrif á útgjöld fólks valdi svindli eða einhvers konar aðgerðum til að reyna að ná niðurgreiðslunni til baka, til hins upprunalega sem til málsins stofnaði, væri hægt að fara í margs konar samanburð á þessu sem ég ætla ekki að gera hér.

Það er ljóst, miðað við hvernig málin hafa þróast undanfarin ár, að eina leiðin til að úrbætur verði í málefnum láglaunafólks er að jafnaðarmenn fari aftur í ríkisstjórn. Það er ljóst. Eina leiðin til að eitthvað verði gert af viti varðandi aðbúnað láglaunafólks er að jafnaðarmenn fari aftur í ríkisstjórn. Þetta er staðreynd sem blasir við hverjum sem vill sjá. Það sýna langir biðlistar eftir leiguhúsnæði sveitarfélaga og félagasamtaka. Eins og hér hefur komið fram hefur húsaleiga á almennum leigumarkaði rokið upp úr öllu valdi. Það hefur verið í beinu samhengi við að félagslegt húsnæðiskerfi var lagt niður fyrirvaralaust án þess að gripið væri til nauðsynlegra úrræða fyrir þá hópa sem skákað var út af hefðbundnum húsnæðismarkaði. Þetta eru staðreyndir málsins.

[17:00]

Samfylkingin varaði mjög við breytingunum sem tóku gildi í ársbyrjun 1999, við vorum að ræða þetta á árinu 1998, og benti á afleiðingar þess frá öllum hliðum og það hefur allt komið fram hvað það þýddi að loka félagslega húsnæðiskerfinu án þess að stóraukin framlög og stuðningur við byggingu leiguíbúða kæmi til. En stjórnvöld skelltu skollaeyrum við. Það er öllum ljóst hvert það hefur leitt okkur eða réttara sagt það fólk sem hefur þurft á þessum félagslegu úrræðum að halda varðandi húsnæðismál.

Fyrir utan þessa miklu breytingu og afleiðingarnar út á markaðinn hefur fleira gerst sem erfitt er að átta sig á og umhugsunarefni fyrir okkur öll. Mismununin blasir við fólki sem býr í félagslegu eignarhúsnæði. Það varðar innlausn og kauprétt. Þarna skiptir máli hvort fólk er á svokallaðri 10 ára reglu eða hvort það hefur átt íbúðina sína hér um bil alla tíð. Hafi það hins vegar átt hana lengur er það gert hér um bil eignalaust við söluna en hafi það átt hana í 10 ár fær það allt aðra möguleika við sölu.

Hér var rætt að vandinn væri til kominn vegna húsaleigubóta. Vandinn er til kominn vegna þess að skrúfað var fyrir byggingar sveitarfélaga í einu vetfangi. Það nam hundruðum íbúða á ári sem sveitarfélögin, bara á höfuðborgarsvæðinu byggðu, ef tekinn var Mosfellsbær, Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður og Garðabær. Á þessum fimm stöðum voru þetta hundruð íbúða sem byggðar voru árlega á vegum sveitarfélaganna. Fyrir það var skrúfað á einu bretti án þess að annað kæmi til. Á nákvæmlega sama tíma og þetta gerðist voru stórfelldir fólksflutningar af landsbyggðinni á suðvesturhornið. Ígildi fjögurra manna fjölskyldu í hverja einustu viku. Þetta fólk þurfti húsnæði, húsnæði sem var ekki til. Allt í einu þurfti fólkið sem áður hafði sótt um íbúðir hjá sveitarfélögunum, sem átti heima í þessum félagslegu úrræðum, að keppa við þá sem voru að flytja hingað suður, þá sem voru nýir á markaði, um þær fáu íbúðir sem voru lausar. Auðvitað tók almenni byggingarmarkaðurinn ekki við sér um leið. Það er ekki þannig. Það er ekki hægt að loka hér í dag og opna þarna á morgun. Það þarf aðlögun. Á þetta var bent. Það voru haldnar margar ræður um þetta en menn skelltu skollaeyrum við. Allt gekk það eftir, því miður. Við erum enn að takast á við afleiðingarnar af þessu.

Við bentum líka á að þetta mundi hafa sprengiáhrif á markaðinn. Staðreyndin er sú að íbúðaverð hækkaði gífurlega mikið, leiguverð enn meira, fasteignamat, fasteignagjöld og eignarskattar. Benda má á breytingar á fasteignamatinu sem við vorum að fjalla um á síðasta ári. Það hefur haft gífurleg áhrif á fasteignamat, eignarskatta og útgjöld fólks og fer beint út í leiguverðið á almennum leigumarkaði.

Það er furðulegt að menn skuli reyna að verja þetta vegna þess að allt sem bent var á gekk eftir. Við höfum gagnrýnt þetta harkalega en við höfum líka gert annað, þ.e. flutt tillögur til úrbóta. Þegar þessi tillaga sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur mælt fyrir, um átak til að fjölga leiguíbúðum og fjögurra ára framkvæmdaáætlun, var rædd í þinginu í fyrra gerðist hið gleðilega, að hæstv. félmrh. kom skyndilega og fagnaði tillögu Samfylkingarinnar. Hann lýsti því yfir í umræðunni að víðtæk samstaða væri að myndast um að bæta úr skorti á leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðinu með svipuðum hætti og við vorum að flytja tillögur um. Hann upplýsti um góðar undirtektir lífeyrissjóða, verkalýðshreyfingar, samtaka atvinnurekenda um að koma að átaki og þá hugmynd að viðkomandi sveitarfélög leggi lóðir og gatnagerðargjöld fram sem hlutafé í eignarhaldsfélög sem lífeyrissjóðir og fleiri legðu fjármagn í.

Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið. Allt í einu var þessari tillögu, sem var vel unnin, skynsamleg og ábyrg, vel tekið af hæstv. félmrh. Nú hefði ég kosið, herra forseti, að hann hefði verið hér til svara. Auðvitað vaknar spurningin: Hvað hefur gerst? Lítið hefur gerst, virðulegi forseti, annað en að Búseti hefur klórað í bakkann og gert sitt. Það er þakkarvert framtak en meira þarf til. Hér eru hrikalegar tölur um leigu á markaði. Á sama tíma fjölgar stöðugt þeim sem búa við bág kjör og þurfa sem mest á því að halda að félagsleg úrræði, ekki síst í húsnæðismálum, séu fyrir hendi.