Átak til að auka framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 17:14:12 (4919)

2002-02-19 17:14:12# 127. lþ. 80.11 fundur 116. mál: #A átak til að auka framboð á leiguhúsnæði# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[17:14]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir áhyggjur sem fram komu í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi vextina. Það er rétt að þetta er undirrót vandans að verulegu marki. Leiðin til að ná vöxtunum niður er að hluta til sú að lífeyrissjóðirnir komi að þessu átaki á myndarlegan hátt. En þeir vilja að sjálfsögðu hafa tryggingu fyrir fé sínu. Lífeyrissjóðunum er fyrst og fremst ætlað að sjá sjóðfélögum fyrir lífeyri en jafnframt er eðlilegt að þeir hugi að því hvernig þeir geti ráðstafað fjármunum á samfélagslega uppbyggilegan hátt. Það sem ég sé fyrir mér er að lífeyrissjóðirnir láti fé renna í miklum mæli til húsnæðismála með bakábyrgð ríkisins. Ríkið væri í sjálfu sér ekki að taka mikla áhættu með þessum hætti. Það er staðreynd að hér eru á ferðinni tryggustu veð sem hugsast getur. En það er líklegt að þarna kæmu að málum fyrirtæki, Búseti, húsnæðissamvinnufélög og önnur slík, ótengd og óháð lífeyrissjóðunum. Ef lífeyrissjóðirnir veittu fé til þeirra verkefna væri eðlilegt að ríkið kæmi þar inn með bakábyrgð.

Þetta þarf allt að byggjast á víðtæku samstarfi þessara aðila, ríkis, lífeyrissjóða og sveitarfélaga eins og hv. þm. nefndi. Ef grunnurinn í þessu samstarfi er góður hef ég trú á því að okkur takist að færa þennan byggingarkostnað, þ.e. þennan vaxtakostnað, niður og þar með byggingarkostnaðinn einnig.