Átak til að auka framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 17:27:18 (4922)

2002-02-19 17:27:18# 127. lþ. 80.11 fundur 116. mál: #A átak til að auka framboð á leiguhúsnæði# þál., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[17:27]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil við lok umræðunnar þakka þeim sem hafa tekið til máls, þingmönnum Vinstri grænna og hv. 4. þm. Vestf., Guðjóni A. Kristjánssyni, fyrir afar jákvæðar undirtektir við þá tillögu sem hér er lögð fram.

Ég held að það sé alveg ljóst af þeirri umræðu að mjög breið og góð samstaða er milli allra þriggja stjórnarandstöðuflokkanna í þessu máli og á nauðsyn þess að auka framboð á leiguhúsnæði og taka myndarlega á húsnæðismálum lágtekjufólks. Það er raunverulega meginniðurstaðan eftir þær umræður sem hér fóru fram.

Ég vil einnig taka undir það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. 6. þm. Norðurl. e., Árna Steinari Jóhannssyni, að afar brýnt er að menn skoði þá sérstöðu sem er á höfuðborgarsvæðinu varðandi búferlaflutninga og nemendur sem koma hingað til höfuðborgarinnar til þess að stunda nám. Það er orðið afar mikið vandamál fyrir stúdenta utan af landi að fá viðunandi lausn á húsnæðismálum sínum. Ég þekki það af samtölum mínum við þá sem hafa séð um það af miklum myndarskap en við erfiðar aðstæður að reyna að koma upp stúdentagörðum eða íbúðum fyrir stúdenta, t.d. hjá Félagsstofnun stúdenta. Þar eru umsóknir miklu fleiri en nokkurn tíma er hægt að anna. Ég nefndi það að fyrir einu og hálfu ári voru þessar umsóknir 835 og ekki var hægt að leysa þörf nema 50--60% nemenda þannig að þetta vandamál sem hv. þm. nefndi er gífurlega mikið og brýnt að leysa.

Ég vil einnig taka undir það sem hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson, nefndi varðandi vaxtamálin. Meginvandamálið að því er varðar uppbyggingu íbúða fyrir láglaunafólk er raunverulega þessi okurvaxtastefna hjá núverandi ríkisstjórn að því er varðar leiguíbúðir. Það sjá allir að ekki er hægt að ætlast til þess að sveitarfélög, stúdentasamtök eða félagasamtök almennt komi upp íbúðum og fái til þess lánafyrirgreiðslu sem ber kannski 4--5% vexti eða þaðan af hærri. Menn verða bara að viðurkenna það og gera það upp við sig hvort menn vilji hafa félagslega aðstoð í húsnæðismálum fyrir láglaunafólk eða ekki. Það kostar auðvitað sinn pening að gera það og menn verða bara að gera upp við sig hvort það eru þau mál sem þeir sem stýra þjóðfélaginu hverju sinni vilji hafa í forgangi.

Ríkisstjórnin hefur séð til þess að þessi mál hafa drabbast svo mikið niður að biðlistarnir eru eins og við höfum farið í gegnum hér, um 2.000 manns. Það bíður því ærið verkefni nýrrar ríkisstjórnar að taka á því máli.

Við getum bara nefnt að það sem á að vera ígildi félagslegra lána eftir að félagslega kerfið var lagt niður, þessi svokölluðu viðbótarlán fyrir fólk sem býr við erfiðar aðstæður, vextir á þeim hafa hækkað úr 2,4% eins og var í félagslega eignaríbúðakerfinu í hvorki meira né minna en í 5,7% á þremur árum. Þau bera mun hærri vexti, þessi svokölluðu félagslegu lán, viðbótarlán, heldur en húsbréfalánin, 5,7% vexti. Það sjá allir hvert stefnir í þessu máli. Það að hækka vaxtakjör á leiguíbúðum úr 1% í 4,9% er ekki boðlegt ef menn vilja á annað borð vinna af heilindum að því að byggja upp sæmilega viðráðanlegan leigumarkað þegar leigugreiðslur þurfa að hækka um 16 þús. kr. á lítilli íbúð bara við þessar vaxtabreytingar. Ég tel eina af meginorsökum þess hve hægt gengur að koma á viðráðanlegum leigumarkaði vera þær vaxtahækkanir sem ríkisstjórin hefur beitt sér fyrir á umliðnum árum.

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið sem eru afar gagnlegar og sýna góða og breiða samstöðu stjórnarandstöðunnar í þessu brýna hagsmunamáli láglaunafólks og námsmanna.