Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 17:41:35 (4924)

2002-02-19 17:41:35# 127. lþ. 80.12 fundur 156. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (sjómannaafsláttur) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[17:41]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. sem hv. þm. Pétur Blöndal er ekki að flytja í fyrsta skiptið. Hann hefur haft mörg orð um það óréttlæti sem að hans mati fylgdi þessari ákvörðunartöku á sínum tíma, um sjómannaafslátt. Í greinargerð er farið langt aftur í tímann en kannski ekki eins langt og hv. þm. ætti að fara. Veit þingmaðurinn það að í 300 ár héldu fiskimenn uppi kostnaði við spítala með svokölluðu spítalagjaldi? Þeir lögðu afla að landi til að halda spítölum gangandi áður fyrr. Veit hv. þm. nokkuð um svokallað sýslumannsgjald sem sjómenn þurftu að greiða á sínum tíma einir Íslendinga? Vissi þingmaðurinn nokkuð um svokallað sætisgjald sem sjómenn urðu sérstaklega að leggja til með sér til þess að fá aðgang að kirkjusókn o.s.frv.? Veit þingmaðurinn nokkuð um hver þróunin hefur verið í sambandi við sjómannaafsláttinn?

Er þingmaðurinn búinn að gleyma því að það hefur komið fram í ræðu hæstv. fjmrh. að hann telji ekki óeðlilegt að afnema sjómannaafsláttinn en það verði bara ekki gert fyrr en aðilar hafi komið sér saman um hvernig skuli fara með? Það hefur verið rætt margsinnis í þingflokknum. Það er meginstefna Sjálfstfl. að hreyfa ekki við sjómannaafslættinum fyrr en gengið hefur verið frá samkomulagi á milli sjómanna og útgerðarmanna hvað þetta mál áhrærir? Það er alveg ljóst. Hv. þm. flytur þetta mál því ekki í nafni þingflokks Sjálfstfl. enda ekkert við því að segja. Það eru skoðanaskipti innan Sjálfstfl. og það er bara hið besta mál. Engum dettur í hug að bregða fæti fyrir þingmanninn og þetta hugmyndaflug hans.

En það er eitt sem alltaf kemur hér upp og þingmanninum verður heldur betur fótaskortur á. Það er þegar hann fer að tala um jafnræðisregluna, að allir skuli vera jafnir fyrir þessum skattfríðindum. Hann talar hér ár eftir ár um óréttlætið í því að sér skuli vera borgaðir allt of háir dagpeningar, þetta sé svo mikið óréttlæti að það nái ekki nokkurri átt. Hvers vegna er þá þingmaðurinn að taka á móti þessum dagpeningum? Hvers vegna er hann yfir höfuð að fara á erlenda grund á vegum Alþingis ef það er svona mikið umkvörtunarefni að taka á móti þessum dagpeningum? Þetta er mjög sérkennilegt, mjög sérstakt.

Hann hefur lýst því yfir að hann hafi gefið þá peninga sem honum þykir umfram til góðgerðastarfsemi. Það er mjög vel. En misjafnt höfumst við að þegar við erum á erlendri grund. Ég veit að hv. þm. Pétur Blöndal hleypur mikið og borðar grænmeti á meðan aðrir þingmenn eru ekki í þessu sporti og borða ágætismat.

[17:45]

Í annan stað er hv. þm. tíðrætt um réttlætið. Þingmaðurinn hefur hugsanlega borðað í matsal Alþingis nú í hádeginu og greiddi þá 360 kr. fyrir máltíð sem líklega kostar 1.000 kr. Ég er hissa á þingmanninum að hafa aldrei komið inn á að það sé óréttlæti gagnvart borgurunum sem þurfa að kaupa sér máltíð fyrir 1.000 kr., að hann geti farið niður og keypt sér máltíð fyrir 360 kr. Hvað með muninn þar á milli? Væri ekki eðlilegt að hann greiddi skatta af því óumbeðið ef réttlætið er þannig í hávegum haft hjá hv. þm.?

Síðan kom hv. þm. að því að aðallega séu það karlmenn sem vinna á þessum togurum og óeðlilegt sé að þeir njóti skattfríðinda og þeir hafi há laun. En veit þingmaðurinn hvert tímakaupið er á frystitogara? Hefur þingmaðurinn nokkurn tíma sest niður og reiknað út meðalhlut togarasjómanns á frystitogara og brotið niður í að meðaltali 14 stunda vinnudag. Hvað er það í dagvinnu, eftirvinnu, næturvinnu og þegar vaktaálag er komið á vinnu sjómanna? Ég hugsa að þingmaðurinn mundi nú ekki vilja gera þetta starf að ævistarfi sínu upp á þau kjör sem hér eru í boði þegar grannt er skoðað.

Síðan er talað um fólk sem starfar í flugi og fleira. Hann kom nú ekki inn á það sem hann hefur einhvern tíma talað um áður, fólk sem starfar í sendiráðum erlendis, sendifulltrúa Íslendinga erlendis og fleira í þeim dúr. (Gripið fram í.) Já, gott. Ég biðst afsökunar, ég heyrði það bara ekki.

En í fyrsta lagi hefur hæstv. fjmrh. nefnt að þetta sé mál sem aðilar vinnumarkaðarins verði að gera upp við sig áður en afnumið verður. Í annan stað hafa fjölmargir aðrir aðilar ýmis skattfríðindi, svo sem fæðið sem ég nefndi áðan, bílastyrki, dagpeninga, ferðapeninga og hvaða nafni þetta nefnist allt. Ef hv. þm. væri samkvæmur sjálfum sér hefði hann lagt hér fram frv. sem tæki á allri skattaflórunni frá A til Ö.

Ég sé að honum verður mikið um. Ég er ekkert hissa á því vegna þess að það væri náttúrlega mikill arfagarður að fara í. Þess vegna veit ég að mörgum mun finnast miður að sjómannastéttin skuli sérstaklega lögð undir í þessu máli sem hann talar um sem mikið óréttlætismál.

Í grg. er m.a. komið að því að sjómannaafslátturinn mismuni einnig launþegum og hafi sú mismunun farið vaxandi vegna breyttra starfshátta í útgerð og fiskvinnslu og vegna breytinga á framkvæmd sem m.a. stafar af þeirri tilhneigingu að útvíkka sífellt undanþágur.

Síðast þegar tekið var á sjómannaafslættinum, líklega 1992 ef ég man rétt, voru einmitt allar reglur hertar og gerðar skýrar og skilvirkari. Síðan kom upp dómur sem ég get verið sammála þingmanninum um að kannski var umdeilanlegur, þ.e. þegar hafnsögumönnum og starfsmönnum á hafnsögubátum var aftur dæmdur sjómannaafsláttur.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að það voru miklir erfiðleikar með að fá menn til starfa á sjó þegar þessum sjómannaafslætti var komið á sem þá hét hlífðarfatapeningar. En mönnum þótti eðlilegt að leita þessara leiða. Það var líka til í virkjunum, ætli það hafi ekki verið í kringum 1974 eða 1976, að þeir sem unnu við virkjunarframkvæmdir fengu sérstakar greiðslur fyrir að vera fjarri heimilum sínum, fyrir að geta ekki unnið á heimili sínu eins og aðrir sem unnu frá kl. 8 til 5 eða 8 til 7.

Ég ætla nú ekki að eyða miklu púðri í þetta. Ég lýsi andstöðu minni við þetta mál og hefði talið eðlilegt, ef á annað borð á að fara í skattamál, að taka á flórunni allri en stökkva ekki á þessa einu stétt af slíkri óbilbirni sem þingmaðurinn hefur of oft gert. Ég hef áður sagt að hæstv. fjmrh. hafi lýst því yfir með stuðningi þingflokks Sjálfstfl. að aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. útgerðarmenn og sjómenn, yrðu að koma sér saman um það hvernig leysa ætti þetta mál.

Hv. þm. kom inn á það í upphafi ræðu sinnar að þingið hefði stigið stórt skref og afnumið skattfríðindi forseta Íslands. Það er rétt en hann sagði bara ekki alla söguna. Laun forseta Íslands voru hækkuð sem nam skattfríðindunum þannig að þar var status quo. Það var status quo í launamálum forseta Íslands vegna þess að launin voru hækkuð sem nam þeim skattafslætti sem hann hafði fengið áður en var afnuminn. Það er því ekkert annað en leikur að tölum og það kann hv. þm. Pétur Blöndal mjög vel. Hann kann að leika sér með tölur. En ég hélt að hann léki sér ekki með tölur öðruvísi en að öll sagan í þessu máli væri sögð.

Herra forseti. Ég lýsi andstöðu minni við þetta frv. hv. þm. Péturs Blöndals.