Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 17:56:37 (4928)

2002-02-19 17:56:37# 127. lþ. 80.12 fundur 156. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (sjómannaafsláttur) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[17:56]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt sem ég hjó eftir í málflutningi hv. þm. Péturs Blöndals. Í fyrsta lagi gat hann þess að sjómenn hefðu 500 þús. kr. á mánuði og þaðan af meira (PHB: Á skuttogurunum.) á skuttogurunum. Það er ekki alveg rétt. Það eru til sjómenn sem hafa lægri laun en það.

Síðan kom hann með þessa fullyrðingu, þar sem ég talaði um tímavinnukaupið, að þar væri of í lagt, m.a. væru reiknaðar vinnustundir þegar skip eru á siglingu á miðin eða af miðum og í land. Þá eru menn bara að vinna mikla vinnu, t.d. í veiðarfærum. Það er vinna að sigla skipi frá A til B. Það er vinna líka, hv. þm.

Ég óttast það að þingmaðurinn hafi fengið smit af fjölmiðlamönnum sem fara til sjós, einkum þegar gott er veður. Þá segja þeir venjulega frá þessu fína sjómannslífi þegar allt leikur í lyndi. Þá er tjarnsléttur sjór og eftir góðan vinnudag fara allir saman inn í matsal, þar er spilað á harmonikku og gítar, sungið og trallað og allir hafa mjög gaman af. Svo beinist að lokum sjónvarpslinsan út um kýraugað að fögru sólsetri. Ja, hvílíkt líf.