Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:23:12 (4950)

2002-02-19 19:23:12# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:23]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég var sannast sagna að vona flutningsmanna vegna að þetta hefði eða væri vanhugsað.

Um kostnaðarrökin vil ég taka það fram að þótt þau eigi við rök að styðjast þá tek ég undir það að samtryggingarþátturinn sé veigameiri röksemd. Trúin á einstaklinginn, já. Við skulum hafa trú á einstaklinginn. En staðreyndin er sú að við þekkjum dæmin þar sem atvinnuekendur reyna að þröngva fólki inn í réttindakerfi sem er ódýrara. Þetta er bara staðreynd. Sérstaklega á tímum þegar atvinnuleysi ríkir er sú hætta raunverulega fyrir hendi.

Varðandi samtryggingarþáttinn þá er ég einfaldlega að vísa í greinargerð með frv. Talað er um sjóði sem verði öðrum sjóðum vinsælli vegna þess að þeir geti veitt betri réttindi. Og hverjir eru það? Hvaða sjóðir eru líklegir til þess? Eru það ekki þeir sjóðir sem þá hugsanlega bjóða upp á minni samtryggingu? Er það ekki líklegt? Er ekki líklegt að ungt, heilsuhraust fólk leiti inn í slíka sjóði og flýi þá sem eru heilsuveilir og þar sem hætta er á örorku? Í greinargerð frv. segir, með leyfi forseta:

,,Valfrelsið, sem hér er lagt til, mun flýta þeirri þróun, sem þegar er hafin, að lífeyrissjóðir veiti réttindi háð kyni, aldri og jafnvel fjölskyldustöðu.``

Þarna er farið að mismuna einstaklingum á þessum grunni og þess vegna er staðhæft að verið sé að draga úr samtryggingu lífeyrissjóðanna.