Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:44:23 (4957)

2002-02-19 19:44:23# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:44]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi því að hv. þm. sé einlægur þegar hann talar um að þessi réttur til vals verði ekki gagnkvæmur. Ég trúi því. Hins vegar er alveg ljóst að um leið og farið er að hrófla við kerfinu er hætta á að krafa komi um að lífeyrissjóðum verði jafnframt heimilt að velja það fólk sem kemur inn í sjóðina.

Annað atriði sem ég vildi jafnframt ræða um er sú fullyrðing hv. þm. að aðhald við stjórnun og rekstur sjóðanna sé takmarkað. Það er ekki rétt. Það er einfaldlega rangt. Það er mikið aðhald með rekstri sjóðanna. Kennitölur eru bornar saman og þær eru birtar opinberlega. Aðalfundir eru haldnir árlega og þeir eru opnir öllum sjóðfélögum sem hafa þar möguleika á að koma athugasemdum sínum að. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að fólk spekúlerar mjög mikið í þessu. Það skoðar þetta og hefur tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri.