Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 20:11:38 (4965)

2002-02-19 20:11:38# 127. lþ. 80.21 fundur 265. mál: #A meðferð opinberra mála# (áfrýjunarréttur, fjölskipaður dómur) frv., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[20:11]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Það frv. til laga sem ég mæli hér fyrir er um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, með síðari breytingum. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þetta flokkist undir mannréttindamál.

Frv. gengur út á tvennt, annars vegar réttinn til þess að áfrýja máli úr undirrétti til Hæstaréttar og hins vegar hvernig skipa skuli dóm sem byggir á framburði vitna, þar sem leitað er til vitna.

Venjulega eru tvö dómstig í dómsmálum hér á landi. Frá því eru þó undantekningar í svokölluðum minni málum. Er þar átt við einkamál þar sem fjárhagslegir hagsmunir eru ekki miklir og opinber mál þar sem refsingar eru ekki þungar. Allt er þetta að sjálfsögðu afstætt. Ætli nokkrum finnist sitt mál vera minna mál eða minni háttar mál og refsingin ekki þung ef mönnum finnst dómurinn vera ranglátur? En í slíkum málum þarf leyfi frá Hæstarétti til þess að unnt sé að áfrýja héraðsdómi, sbr. 152. gr. laga nr. 91/1991, um með ferð einkamála, og 150. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Röksemdir fyrir takmörkun á rétti til áfrýjunar eru fyrst og fremst þær að takmarka málafjölda á áfrýjunarstigi. Miklir hagsmunir eru bundnir við að álag á áfrýjunarstigi verði ekki of mikið þannig að málsmeðferð dragist á langinn. Undanfarin ár hefur náðst mikill árangur hvað varðar málshraða fyrir Hæstarétti. Þegar ég hef leitað eftir upplýsingum frá Hæstarétti um hvað valdi því eða hvað réttlæti það að það sé lagt í vald réttarins að ákveða hver fái að áfrýja sínu máli þá eru svörin á þann veg, þó að þau svör séu ekki formlega sótt, að með því að vísa málum frá hafi tekist að stytta biðlista sem hafi hrannast upp frammi fyrir Hæstarétti. Ég tek undir að miklir hagsmunir eru bundnir við það að hraði sé á málum. En það gengur náttúrlega ekki að gera það á kostnað einhverra sem eru að leita réttar síns og eiga að hafa fullan rétt til þess.

Í þessu frv. er lagt til að felldar verði niður lögbundnar takmarkanir við því að maður sem hefur verið sakfelldur í opinberu máli geti áfrýjað niðurstöðunni til Hæstaréttar. Ákvörðun handhafa ríkisvaldsins um að ákæra einstakling fyrir refsiverðan verknað er að sjálfsögðu stór ákvörðun. Leiði ákæran til sakfellingar getur slíkt verið mikið áfall fyrir þann sem fyrir verður. Hér segi ég, með leyfi forseta, í greinargerð:

,,Það hlýtur að þurfa sterk rök og mikla þjóðfélagslega hagsmuni til þess að setja lagareglu sem takmarkar rétt sakfellds manns til þess að bera sakfellinguna undir dómara á æðra dómstigi.``

Ég vildi að ég hefði ekki skrifað þessa setningu. Það eru engin rök fyrir því að mínum dómi að svipta einstakling þessum rétti.

Að mati flutningsmanns eru rökin fyrir óheftum áfrýjunarrétti sakfelldra manna í opinberum málum svo sterk að önnur rök, ef þau fyrir finnast á annað borð, hljóti að víkja. Sparnaðarrökum má ekki tefla fram á kostnað réttlætis og mannréttinda.

Þegar um er að ræða mál sem ráðast af sönnunargildi framburðar vitna er líklegt að nauðsynlegt sé að vega og meta ýmis álitaefni og er eðlilegt við slíkar aðstæður að fleiri en einn dómari dæmi. Með þessum hætti er stuðlað að traustara réttaröryggi.

Þetta eru þau tvenn sjónarmið, þessar tvær breytingar sem verið er að leggja til, þ.e. annars vegar að einstaklingur geti jafnan áfrýjað máli til Hæstaréttar ef hann telur að réttlætið hafi ekki náð fram að ganga. Það er einstaklingurinn sem er að taka áhættu. Það er hann sem ber sakarkostnað. Falli dómurinn honum ekki í hag og hafi það gerst í undirrétti hefur hann þurft að greiða sakarkostnaðinn og ef hann tapar málinu í Hæstarétti mun hann að öllum líkindum einnig þurfa að greiða sakarkostnað. Ég tel að þessi vinnuregla sem á sér lagastoð stríði hreinlega gegn mannréttindum. Hún stríðir gegn mannréttindum. Það á ekki að vera háð duttlungum manna í Hæstarétti eða annars staðar að ákveða hver fær að áfrýja máli. Maður sem telur brotinn á sér rétt sættir sig ekki við að mál hans sé flokkað sem eitthvert minni háttar mál. Ég tel þetta vera mikið sanngirnismál og jaðra við mannréttindabrot að viðhalda þeirri reglu sem nú er við lýði í lögunum.

Varðandi hitt atriðið um fjölskipaðan dóm þegar vitni eru leidd fram þá finnst mér það einnig vera sanngirnismál. Þá er augljóslega um að ræða álitamál þar sem kölluð eru vitni fyrir dóminn. Í slíkum tilvikum þarf að vega og meta ýmis álitaefni og við slíkar aðstæður er eðlilegt að fleiri en einn dómari komi að dómnum.

Ég hef borið þetta frv. undir ýmsa menn, lögfróða og aðra sem er annt um mannréttindin og óhætt er að segja að það hefur fengið mjög góðan hljómgrunn.

Ég ætla að leyfa mér að óska eftir því að þessu máli verði vísað til allshn. að lokinni þessari umræðu. Ég vonast svo sannarlega til að frv. verði samþykkt á Alþingi fyrir vorið.