Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 20:19:03 (4966)

2002-02-19 20:19:03# 127. lþ. 80.21 fundur 265. mál: #A meðferð opinberra mála# (áfrýjunarréttur, fjölskipaður dómur) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[20:19]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það frv. sem verið er að ræða hér tel ég vera um réttarbót einstaklings og að í því felist það sjónarmið að einstaklingur sem telur sig hafa verið dæmdan óréttmætum dómi eigi þess kost, þótt ekki sé um háar upphæðir að ræða, að fylgja máli sínu eftir.

Þetta frv. er tvíþætt og ég tek undir bæði efnisatriði þess, í fyrsta lagi að 1. gr. kveður á um það að ef sakborningur neitar sök eigi dómari að kveðja sér til fulltingis tvo aðra dómara. Dómur verði þá felldur af þrískipuðum dómi þegar þannig háttar til að ákærði neitar sök og beita þarf vitnaleiðslum og öðrum líkindarökum til að fella dóm yfir viðkomandi einstaklingi. Það er kostur að þá sé það ekki einn maður sem gerir það, heldur þrír. Sú ákvörðun að breyta því fyrirkomulagi með þeim hætti sem lagt er til í 1. gr. mundi óhjákvæmilega verða til þess að ef sakboringur fengi á sig dóm, jafnvel þó að hann teldi hann óréttlátan og þrír dómarar yrðu um það sammála, hygg ég að það yrði til þess að viðkomandi einstaklingur mundi aðeins draga við sig að fara með slíkt mál í Hæstarétt. Það er afar líklegt, nema eitthvað nýtt kæmi fram í málinu, að dómurinn félli eins í Hæstarétti. Þar af leiðandi veikir það auðvitað mikið málsmeðferðina að fara með einróma niðurstöðu þriggja dómara í máli þar sem hagsmunir eru ekki miklir þó að vissulega sé afar afstætt í öllum málum hvenær hagsmunir eru miklir. Manni sem telur að hann sé dæmdur óréttmætum dómi, þó að ekki sé um stóra sök að ræða og ekki miklir fjármunir í spilinu, getur sviðið það jafnmikið og öðrum sem dæmdur er fyrir meiri sakir. Við vitum að mönnum er mjög sárt um mannorð sitt og heiður.

Hin tillagan sem felst í þessu frv., að menn skuli ávallt eiga rétt á að vísa máli til Hæstaréttar og að sparnaðarrökum megi ekki beita, er líka réttmæt. Ég tek undir það sjónarmið að ekki sé hægt að beita sparnaðarrökum á móti mannréttindum og réttlæti. Ég tel hins vegar að það sem felst í 1. gr. geti orðið til þess að það dragi úr málafjölda sem færi til Hæstaréttar eftir að þrír dómarar hefðu dæmt í máli en mér finnst ekki verjandi að sá einstaklingur sem telur að hann hafi hlotið rangan dóm eigi ekki að geta leitað réttar síns til að hnekkja honum fyrir Hæstarétti. Þess vegna tek ég undir efni þessa frv. og tel að hér sé um réttarbót að ræða fyrir einstaklinga gagnvart ákæruvaldinu og vona að málið fái meðferð sem slíkt mannréttindamál.