Sala Landssímans

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:07:33 (4970)

2002-02-25 15:07:33# 127. lþ. 81.1 fundur 352#B sala Landssímans# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er áríðandi að menn missi ekki sjónar á aðalatriðum þótt á ýmsu gangi. Aðalatriðið er náttúrlega það að Síminn stendur afskaplega vel sem fyrirtæki, er traust og öflugt fyrirtæki, og sá gauragangur sem orðið hefur í kringum hann hefur engu breytt um það efni Símans. Menn mega því ekki láta það rugla sig eða fara neitt út af sporinu í því sambandi.

Það sem við hæstv. utanrrh. sögðum báðir var að það væri mat okkar að það væru minni líkur á því en meiri að Síminn mundi seljast í þessari lotu eða jafnvel á þessu kjörtímabili. Við tókum jafnframt fram, báðir tveir, að Síminn er enn þá gott fyrirtæki til sölu. Það er æskilegt að Síminn hverfi til einkaeignar. Það var samþykkt á Alþingi, ekki eingöngu af ríkisstjórninni eða flokkum þeirra heldur með miklum meiri hluta. Þá niðurstöðu hljóta menn að virða. Sú niðurstaða stendur enn þá og það er alveg sjálfsagt að einkavæðingarnefndin ræði við hinn danska aðila og ljúki þeim þáttum á annan hvorn veginn. Það er ekki nema sjálfsagt að það sé gert. Viðræður voru í gangi og sjálfsagt er að þeim sé haldið áfram. Þær viðræður breyta ekki á þessari stundu því mati mínu, eða hæstv. utanrrh. hygg ég, að ekki séu neinar verulegar líkur á að Síminn seljist í þessari lotu. En menn mega ekki láta þann storm sem nú geisar, hvort sem það er í vatnsglasi eða annars staðar, rugla sig varðandi Símann. Þær forsendur sem voru fyrir sölu hans eru auðvitað fyrir hendi eftir sem áður. Það gefur augaleið.