Sala Landssímans

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:09:19 (4971)

2002-02-25 15:09:19# 127. lþ. 81.1 fundur 352#B sala Landssímans# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki um það deilt að stjórnin hefur tilskildar heimildir til að selja Símann, og lögformlega getur hún haldið því áfram ef henni sýnist svo. En það sem verið er að spyrja um hér eru þær aðstæður sem hafa skapast og upp eru komnar. Það er væntanlega ekki til þess að létta mönnum þetta verkefni að fyrir liggja yfirlýsingar formanna stjórnarflokkanna af því tagi sem ég vitnaði til áðan.

Síminn er gott fyrirtæki, eða a.m.k. var hann það, en það er algjörlega ljóst að fyrirtækið hefur orðið fyrir stórfelldum áföllum. Ástandið er ekki betra en svo að þar er forstjóri á leigu um þessar mundir. Það er enginn fastráðinn forstjóri fyrir fyrirtækinu. Stjórnin er rétt liðlega hálfmönnuð því að þar hlaupa menn fyrir borð eða bíða í örvæntingu eftir næsta aðalfundi til þess að geta losnað þaðan út ef marka má fréttir fjölmiðla. Það er því ekki eins og allt sé í lagi á þeim bæ, herra forseti.

Síðan er starfsmannamórallinn þannig að menn eru reknir ef þeir taka borgaralegar skyldur sínar fram yfir hlýðni við höfðingjana sem heimta að allt fari leynt sem að þeim snýr. Ég held því að hæstv. forsrh. verði að rökstyðja það betur en hann gerði áðan að núna sé góður tími til að selja Símann.