Sala Landssímans

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:10:40 (4972)

2002-02-25 15:10:40# 127. lþ. 81.1 fundur 352#B sala Landssímans# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það stendur sem við höfum sagt, við seljum ekki Símann nema við fáum gott verð fyrir hann. Nýlega fengum við það mat frá Reykjavíkurborg, sem margir taka mikið mark á um þessar mundir, að þetta væri heldur betur gott verð sem væri á Símanum (Gripið fram í: Ætlarðu að selja hann?) og þar gætu menn hugsað sér að kaupa. Við erum reyndar ekki með sölunefnd ríkiseigna til að eiga samskipti við Sölunefnd varnarliðseigna en það getur vel verið að menn mundu vilja gera það.

Eins og ég segi er alveg ljóst að jafnvel þó að komið hafi upp álitamál eins og varðandi greiðslu til stjórnarformanns, hvort stjórnin hefði ekki átt að vita um það sem sjálfsagt hefði verið, og fleira þess háttar breytir það engu um sölugæði Símans. Þetta er einhver reginmisskilningur eða menn eru vísvitandi að reyna að rugla málum saman eða menn eru ekki betur að sér en þetta sem ég held að geti varla verið með eins þingreyndan og vanan mann og hv. formann Vinstri grænna. Menn geta verið vinstri sinnaðir en aldrei grænir í þeim skilningi.