Brottvikning starfsmanns Landssímans

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:13:42 (4975)

2002-02-25 15:13:42# 127. lþ. 81.1 fundur 353#B brottvikning starfsmanns Landssímans# (óundirbúin fsp.), LB
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Alþjóðasamfélagið hefur smám saman verið að átta sig á því hve mikilvægir starfsmenn einstakra fyrirtækja geta verið í baráttu gegn lögbrotum og spillingu í samfélögum, hvort heldur þeir eru opinberir eða starfa hjá einkafyrirtækjum.

Tilefni þessarar fyrirspurnar er brottrekstur starfsmanns Landssíma Íslands hf. vegna upplýsinga sem hann veitti fjölmiðli, þ.e. upplýsingar um samning hæstv. samgrh. og stjórnarformanns Landssímans um sérstaka greiðslu til einkafyrirtækis þess síðarnefnda. Það hefur komið fram að þessi samningur stenst hvorki að efni til né formi ákvæði hlutafélagalaga. Það er alvarlegt ef skilaboðin til samfélagsins verða þau ein að hver sá sem treystir sér til að upplýsa um lögbrot, treystir sér til að upplýsa um spillingu, geti átt það á hættu að missa starf sitt. Það er með öllu ólíðandi að sendiboði válegra tíðinda skuli hengdur meðan þeir sem brutu af sér sitja áfram.

Í þessu tilviki á fyrst og fremst að meta upplýsingarnar sjálfar, efni þeirra og eðli, en ekki beina sjónum að uppljóstraranum sjálfum eins og fyrirtækið hefur gert. Það getur ekki ríkt sérstakur trúnaður um ólögmætar aðgerðir og spillingu yfirmanna fyrirtækisins og hæstv. ráðherra. Því beini ég eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. forsrh., leiðtoga ríkisstjórnarinnar, hvort hann hyggist beita sér í þessu máli, í fyrsta lagi vegna brottvikningar starfsmanns Landssíma Íslands og í öðru lagi, og ekki síður, vegna hins ólögmæta samkomulags stjórnarformannsins og samgrh.