Framkvæmd Kyoto-bókunarinnar

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:21:55 (4981)

2002-02-25 15:21:55# 127. lþ. 81.1 fundur 354#B framkvæmd Kyoto-bókunarinnar# (óundirbúin fsp.), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Skýrsla Sivjar Friðleifsdóttur um niðurstöðu 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var rædd á Alþingi þann 19. nóv. sl. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

,,Á grundvelli niðurstöðunnar í Marrakesh verður lokið við endurskoðun stefnumótunar íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum og er stefnt að því að leggja hana fyrir ríkisstjórn fyrri hluta næsta árs. Samhliða hefur hafist undirbúningur að fullgildingu Íslands á Kyoto-bókuninni og er stefnt að því að leggja þingsályktunartillögu þar að lútandi fyrir Alþingi á næsta ári.``

Þar er einnig frá því sagt að vonir séu bundnar við að nægjanlega mörg iðnríki gangi frá fullgildingu bókunarinnar fyrir heimsráðstefnu um sjálfbæra þróun sem haldin verður í Jóhannesarborg síðsumars svo að ljóst verði þá hvenær bókunin öðlist gildi.

Ég leyfi mér að nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. umhvrh. hvenær vænta megi að endurskoðun íslenskra stjórnvalda ljúki og hvort umhvrh. hyggist sjá til þess að Kyoto-bókunin verði fullgild á yfirstandandi þingi og þá í tæka tíð fyrir ráðstefnuna í Jóhannesarborg.

Mig langar einnig að gera að umræðuefni hér nýlegar fréttir frá Bandaríkjunum en þar hafa stjórnvöld gert tillögur um frjálsa samninga um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Eins og kunnugt er sagði Bandaríkjastjórn sig frá Kyoto-bókuninni í fyrra en er víst enn þá aðili að loftslagssamningnum. Forsvarsmenn ESB, Japans og Bretlands hafa gagnrýnt tillögur Bandaríkjastjórnar sem í raun þýða 33% aukningu á losun á 20 ára tímabili til 2012. Það væri fróðlegt að heyra, herra forseti, hvort hæstv. umhvrh. hefur kynnt sér þessar tillögur og hvaða skoðun hún hefur á þeim.