Verðmyndun á matvörumarkaði

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:29:07 (4985)

2002-02-25 15:29:07# 127. lþ. 81.1 fundur 355#B verðmyndun á matvörumarkaði# (óundirbúin fsp.), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Herra forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að það er fákeppni í dagvöruverslun, og margt væri hægt að segja í tengslum við það í sjálfu sér. Það sem hann vakti sérstaklega máls á er hvort hægt sé að skipta upp í vöruverði hvernig verðmyndunin á sér stað og þannig átta sig betur á hvar álagningin er fyrst og fremst í verðmynduninni eins og ég skil þetta.

Þetta er reyndar mál sem við höfum aðeins fjallað um í ráðuneytinu og við höfum fengið ábendingar frá framleiðendum sem lúta að þessu. Ég tek undir með þingmanninum að ég held að það væri alveg þess virði að athuga hvort þetta getur gengið. Í tilefni þessarar fyrirspurnar ætla ég líka að geta þess að Hagstofan hefur athugað verð, og hefur ASÍ m.a. hvatt til þess að verðkannanir verði gerðar á fleiri stigum. Það gæti líka skipt máli í sambandi við að átta sig á álagningunni, hvar hún er óeðlileg enda halda ýmsir því fram að á einhverju stigi sé hún það.