Virðisaukaskattur á umferð undir Hvalfjörð

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:35:37 (4989)

2002-02-25 15:35:37# 127. lþ. 81.1 fundur 356#B virðisaukaskattur á umferð undir Hvalfjörð# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að fá hrein svör við spurningunum þó að ég felli mig ekki við svörin.

Virðulegi forseti. Veggjald um Hvalfjarðargöng er mjög þungur skattur á þá sem nota þau vegna vinnu sinnar eða skólagöngu. Það má líka leiða rök að því að margs konar hagræðing nái ekki fram að ganga vegna þessa gjalds, t.d. í skólamálum, samstarfi um heilbrigðismál, brunavarnir og ýmiss konar öryggismál. Þess vegna finnst mér bagalegt að hæstv. ráðherra hafi ekki leitt hugann að sanngirnisþætti þessa máls. Ég tel það vega mjög þungt.

Hæstv. ráðherra hafnar einnig að sá kostnaður sem starfsfólk og skólamenn verða fyrir vegna akstursins skuli dreginn frá skatti. Það þykir mér mjög miður. Ég tel að út frá jafnræðissjónarmiðum sé óeðlilegt annað en vegfarendur um Hvalfjarðargöng njóti hins sama og þegar ekið er um aðra vegi landsins.