Málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:46:50 (4991)

2002-02-25 15:46:50# 127. lþ. 81.94 fundur 351#B málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ríkisendurskoðun hefur gert alvarlegar athugasemdir við störf og embættisfærslur forstöðumanns Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns svo sem kunnugt er af umfjöllun fjölmiðla síðustu daga. Við lestur bréfs Ríkisendurskoðunar til forsrn. rennur það upp fyrir manni hversu gífurlega mikilvægt starf Ríkisendurskoðun vinnur í þessu kerfi okkar. Það er einnig sérlega umhugsunarvert í ljósi nýlegra dæma um ámælisverða stjórnsýslu innan Símans, hlutafélags í opinberri eigu, og eðlilegt að spurt sé hvort við stæðum ekki betur að vígi gagnvart þeim erfiðleikum sem nú steðja að Símanum ef við hefðum sömu aðkomu að málefnum hans og okkur er tryggð hvað varðar Þjóðmenningarhús og Þjóðskjalasafn.

Þegar málefni Þjóðmenningarhúss eru skoðuð er margt sem vekur hjá manni hugrenningar um að betur hefði mátt standa að því verkefni í upphafi. Það kemur fram í ræðu hæstv. menntmrh. við opnun hússins 20. apríl árið 2000 að hann hafi átt frumkvæði að því að forræði Þjóðmenningarhússins flyttist frá menntmrn. til forsrn. og að helstu rökin fyrir því hafi verið þau að skipa húsinu sess með öðrum þjóðartáknum okkar, svo sem málefnum þjóðfánans, þjóðsöngsins og Þingvalla. En þá skulu menn líka gá að því, herra forseti, að um þessi þjóðartákn okkar gilda lög og reglur, en slíku er ekki til að heilsa með Þjóðmenningarhúsið. Um það gilda engin lög og ekki er hlaupið að því að finna neinar reglur sem húsið starfar eftir.

Í ljósi síðustu atburða er hálfkaldhæðnislegt að glugga í ræður hæstv. menntmrh. og hæstv. forsrh. frá því húsið var formlega tekið í notkun eftir endurbyggingu þess, sem var nú raunar sjálfstætt hneykslismál á sínum tíma vegna óhóflegrar framúrkeyrslu framkvæmdakostnaðar. Í ræðu hæstv. forsrh. er fjallað um hús með sál og góða samvisku en lítið fer fyrir umfjöllun um hlutverk þess eða tilgang. Þess vegna spyr ég hæstv. forsrh. hvort það valdi ekki erfiðleikum að um starfsemi hússins skuli hvorki gilda lög né reglugerð. Sömuleiðis spyr ég hvort hæstv. forsrh. telji í ljósi þess sem gerst hefur að hlutverk hússins eða verksvið stjórnar sé nægilega skýrt. Í því sambandi er líka eðlilegt að óska eftir svari við því hvenær forstöðumaðurinn hafi verið ráðinn að húsinu og hvert hlutverk hans sé samkvæmt erindisbréfi.

Það má taka það fram í þessu sambandi, herra forseti, að erfitt hefur reynst að hafa upp á auglýsingu um starf forstöðumannsins og ber hæstv. forsrh. að sjálfsögðu að gera okkur hér grein fyrir því með hvaða hætti staðið var að ráðningu hans á sínum tíma. Einnig er eðlilegt að óska eftir upplýsingum um með hvaða hætti stjórn hússins er skipuð, hverjir tilnefni í hana, enda hefur það komið í ljós í fjölmiðlum að forstöðumaður Þjóðskjalasafns hafi verið fulltrúi menntmrn. í henni.

Aðrar spurningar sem ég legg fyrir hæstv. ráðherra varða viðbrögð hans við þeim alvarlegu athugasemdum sem honum bárust í bréfi Ríkisendurskoðunar dags. 4. febrúar sl. Kom ekki til álita að leysa forstöðumann Þjóðmenningarhússins frá störfum meðan málið var rannsakað? Og hvað réð því að hæstv. forsrh. ákvað að áminna forstöðumanninn á persónulegan hátt en ekki formlegan? Enn fremur leyfi ég mér að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji ekki að samskipti forstöðumanns Þjóðmenningarhúss og forstöðumanns Þjóðskjalasafns í þessu tiltekna máli gefi tilefni til að setja sérstakar reglur um samskipti og viðskipti opinberra stofnana í hliðstæðum tilvikum.

Lokaspurning mín til hæstv. ráðherra kemur svo inn á þau atriði sem lúta að þeim margítrekuðu deilu- og hneykslismálum sem upp hafa komið að undanförnu og tengjast stjórnsýslu og/eða fjársýslu trúnaðarmanna ráðherra eða ríkisstjórnar. Hver eru almenn viðhorf hæstv. forsrh. til þeirra?

Það verður að segjast eins og er að þjóðin er búin að fá sig fullsadda, herra forseti, og það er rétt að fá að heyra það hvort hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, situr alveg rólegur undir öllum þeim umræðum sem nú geysa um spillingu stjórnvalda og fulltrúa þeirra í samfélaginu.

Lokaorð mín verða svo ummæli í bréfi því sem hæstv. forsrh. skrifaði forstöðumanni Þjóðmenningarhússins þann 7. febrúar sl. og hefur að geyma hinar svokölluðu persónulegu áminningu. Í því bréfi stendur, með leyfi forseta:

,,Ríkisendurskoðun hefur að gefnu tilefni gert úttekt á nokkrum atriðum í stjórnsýslu, en þó einkum fjársýslu, Þjóðmenningarhúss og forstöðumanns þess sérstaklega. Telur Ríkisendurskoðun þá skýrslu upplýsa alla þá þætti til fulls og sé ekki þörf á rannsókn annarra aðila.``

Herra forseti. Þar sem hæstv. forsrh. hefur sagt þetta sama við fjölmiðla þá vil ég vekja athygli á því að þessi ummæli virðast eingöngu að finna í bréfi hans sjálfs. Það er ekki að sjá að þau séu sótt í umrædda skýrslu eða greinargerð Ríkisendurskoðunar sem dagsett er 4. febrúar, enda tekur Ríkisendurskoðun engar ákvarðanir um það með hvaða hætti ráðuneytin fara með þær athugasemdir sem hún gerir við stjórnsýsluna. Það, herra forseti, er í verkahring þeirra ráðherra sem í hlut eiga og þeirra opinberru aðila sem sýsla með þessar upplýsingar.