Málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:57:35 (4993)

2002-02-25 15:57:35# 127. lþ. 81.94 fundur 351#B málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:57]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Í Þjóðmenningarhúsinu er grafið á gylltan skjöld og skal varðveitast um ókomna tíð að Davíð Oddsson forsrh. hafi stigið þar fæti sínum við opnun þess. Þangaðkoma ráðherrans fær í þessu húsi hlutverk í framtíðinni með öðrum frægustu atburðum menningarsögu Íslendinga. Nú væri ráð að fá þessum gullskildi hlutverk við hæfi með því að grafa á hann stuttlega hvernig hæstv. forsrh. hefur farist yfirstjórn þessarar menningarstofnunar úr hendi, hverja hann hefur valið til starfa og hvernig þeir hafa reynst traustsins verðir. Af því að þetta er þjóðmenningarhús væri ekki úr vegi að á þennan skjöld væri líka grafið hvernig sá vaxtarsproti þjóðmenningarinnar sem hér er til umræðu, þ.e. spilling í skjóli pólitísks valds, hefur fengið að skjóta rótum og hefur verið fóstruð í stjórnartíð hæstv. forsrh.

Ég tel að sú yfirlýsing sem hæstv. ráðherra gaf hér áðan hafi þó verið til marks um það að honum hafi fundist vera farið að hitna ískyggilega undir sér. Og það var nú kominn tími til því það getur ekki verið að hægt hafi verið að draga aðra ályktun af því áminningarbréfi sem hann sendi fyrr en þá að hann hafi ætlað að notfæra sér niðurstöðu Ríkisendurskoðunar til þess að fara sér eins varlega í þessu máli og mögulegt var. Hvers vegna skyldi hann annars hafa skrifað það bréf með slíkum flýti? Ég held að ekki sé ástæða til þess að hæla mjög þeirri niðurstöðu sem hér er komin því hún er eðlileg og átti að koma strax. Ég tel þess vegna að niðurstaðan af þessu máli sé sú að hæstv. forsrh. sé þó líklegur til þess að ætla að klára þetta mál með eðlilegum hætti úr því svona er komið.