Málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 16:06:19 (4997)

2002-02-25 16:06:19# 127. lþ. 81.94 fundur 351#B málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[16:06]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Yfirlýsingin sem hæstv. forsrh. gaf við þessa umræðu, um að hann hefði tekið um það ákvörðun að leysa frá störfum tímabundið forstöðumann Þjóðmenningarhúss, er sú eina rétta. Ég segi því miður, því það er alveg ljóst --- við skulum halda því hér til haga í þessari umræðu --- að ég ætla engum í þessum sal, hvort sem hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu, að hann fyllist þórðargleði yfir því að svona atburðir komi upp. Þannig er það ekki, herra forseti, og það er rétt að undirstrika það.

Í þessu samhengi, út frá hinu stóra dæmi, er hins vegar óhjákvæmilegt annað en að minnast á að fleiri mál í stjórnsýslunni hafa vakið athygli og undrun manna. Hér hefur forsrh., þó seint sé, gripið í taumana og maður hlýtur að spyrja í beinu framhaldi: Hvenær er að vænta samsvarandi aðgerða og hreinsunar, að sópað verði undan teppum og menn geri hreint fyrir sínum dyrum í lykilstöðum í fyrirtæki allrar þjóðarinnar, Landssíma Íslands hf.? Það er auðvitað næsta spurning sem vaknar í þessari umræðu, herra forseti. Það er óhjákvæmilegt annað, við þessa umræðu, en að henni verði svarað á einn eða annan veg.