Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 17:05:41 (5009)

2002-02-25 17:05:41# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, Frsm. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[17:05]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi póstdreifinguna er alveg hárrétt að það er viss kostur og aukin þjónusta að fá póst borinn heim oftar í viku. Varðandi t.d. pakkapóstþjónustuna er sjálfsagt hagkvæmni að því. En sé maður ekki heima til að taka á móti viðkomandi pakka þegar hann kemur þarf að fara meiri háttar vegalengd. Í fyrsta lagi þarf að vita hvar viðkomandi pakki er niður kominn ætli maður að sækja hann, í hvaða pósthúsi hann er. Með fækkun á pósthúsum verður stöðugt lengra að sækja þessa þjónustu.

Ég bendi á það enn og aftur að póstþjónustan er ekki bara fólgin í að taka á móti pósti. Hún er líka til að senda póst. Það gerist í gegnum þessi pósthús og þá er ekki hagræði í því að vera búinn að loka pósthúsinu.

Virðulegi forseti. Ég vil koma þessum upplýsingum til hv. þm. Þetta er því ekki jafneinfalt og hv. þm. vill vera láta. Það verður að horfa á þetta í heild sinni og gleðjast yfir því er þjónustustigið batnar á einstökum sviðum. En það má ekki vera á kostnað annarra sviða eins og við höfum mörg mátt upplifa.

Ég upplifi það sem einkavæðingu þegar þjónusta sem snýr að neytandanum, póstmóttakan og póstdreifingin sem slík, er komin í hendur fyrirtækis sem póstþjónustan hefur enga rekstrarlega ábyrgð á, fólki sem er ráðið þar, þjónustan er þar ekki á ábyrgð Íslandspósts eða aðbúnaðurinn. Þar er því í sjálfu sér að mínu mati ákveðin tegund einkavæðingar.