Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 17:10:34 (5012)

2002-02-25 17:10:34# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[17:10]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er rétt að taka fram í upphafi máls míns að ég er ekki jafn vel að mér í þessum málaflokki og samgrh., sem ég gegni störfum fyrir um þessar mundir, enda er ég á öðrum pósti, ef svo má segja, í Stjórnarráðinu. Enda er það svo að samgrh. sat hér alla 1. umr. og kom með skýringar á frv. og síðan stendur þinghefð til þess að 2. umr. fari að mestu fram á vegum nefndarinnar og talsmanna nefndarálitanna.

Ég vil þó nefna varðandi atriði sem komu fram hjá hv. talsmanni minni hluta samgn., að mér finnst mjög margt skiljanlegt í ræðu hans og það sem hann er að fjalla um. Það er ljóst að nýr tími hefur breytt aðstæðum að þessu leyti og auðvitað er það ekki allt til batnaðar. Það er ekki hægt að halda því fram að það sé allt til batnaðar en það lýtur lögmálum hinna nýju tíma og því hvernig byggðamunstur hefur breyst o.s.frv.

Þrátt fyrir allt virðist í lagafrv. þessu reynt að skapa mönnum sem best skilyrði áfram þrátt fyrir breyttan hag og breytta tíma til að fá notið þessarar grundvallarþjónustu sem er svo mikilvæg, þ.e. þjónustu póstsins. Í hugum alls almennings í landinu er þar almannaþjónusta sem menn vilja eiga sem besta og tryggasta.

Frá öndverðu sögunnar hefur það verið talið til fyrirmyndar í skilvirku þjóðfélagi að póstþjónustan sé öflug, traust og trúverðug. Þannig er eðlilegt að menn vilji fjalla um það og binda þær reglur sem að því lúta sem traustustum hnútum.

Hv. þm. nefnir í nefndaráliti sínu, rifjaði upp í ræðu sinni áðan og orðaði á þá leið að marka hefði þurft skýrari reglur um skyldur, fagþekkingu, aðbúnað, þjónustustig og fleira sem hann nefnir í því dæmi. Hann segir einnig á bls. 2, með leyfi forseta:

,,Í gildandi lögum um póstþjónustu og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun eru ákvæði um að setja skuli skilgreindar gæðakröfur um póstþjónustu og einnig er kveðið á um eftirlitsskyldu Póst- og fjarskiptastofnunar.``

Þetta frv. markar ákveðinn lagaramma í þessu skyni. Síðan er heimild til samgrh. til að útfæra nánar reglugerð um þessa þætti og eftir því sem ég best veit er einmitt í smíðum reglugerð um pósthús eða afgreiðslustaði, þjónustustig og gæði póstþjónustu og fleira af þessu falli. Hún er nú þegar í smíðum í ráðuneytinu og þar er reynt að taka á þessum hlutum. Ég tel líklegt að samgrh. muni hafa um það samráð við hv. samgn. hvernig sú reglugerð skuli úr garði gerð og er ekki nema jákvætt að gert sé með þeim hætti.

Varðandi það sem snýr að Póst- og fjarskiptastofnun, eftirliti og atbeina hennar, er eftir því sem ég veit best í þeim efnum alfarið byggt á þeim reglum sem samningar okkar um EES leiða til og tilskipunum sem þaðan hafa komið um þetta efni þannig að þar sé þess gætt að reglur séu samræmdar og menn sitji við sama borð og annars staðar hvað þar varðar.

Varðandi spurningu hv. þm. um alþjónustu vill svo til að ég man til þess að ég gerði athugasemd við þetta orð á sínum tíma í ríkisstjórn. Ég hygg reyndar að það hafi verið í öðrum lagabálki, hvort sá var um fjarskiptaþjónusta almennt eða þess háttar. Mér fannst orðið skrýtið vegna þess að það virtist gefa til kynna allsherjarumlykjandi þjónustu og kannski viðameiri væntingar en efni stæðu til. Ég fékk þá skýringu á orðinu --- reyndar voru skýringar með orðinu í því frv. þótt þær hefðu ekki nægt mér --- þ.e. viðbótarskýringar og sætti mig við orðið eftir þær skýringar þó að mér finnist orðið ekki nægilega nákvæmt í sjálfu sér og nægilega fallegt. En ráðuneytið hefur sagt mér að ekki hafi verið leitað til Íslenskrar málnefndar um þetta orð. Þannig liggur hér fyrir svar við þeirri spurningu.

Eins og formaður samgn., hv. 8. þm. Reykv., sagði og reyndar kom það einnig fram hjá hv. 6. þm. Suðurl., Lúðvíki Bergvinssyni, hafa menn á undanförnum árum verið að skipuleggja og auka öryggi á póstþjónustu alla virka daga. Færist það í vöxt dag frá degi. Menn vænta þess að innan ekki of langs tíma, tveggja ára eða svo, muni sá árangur hafa náðst.

Eins og ég sagði í upphafi, eingöngu í þeim tilgangi að menn kæmust ekki að því sjálfir hér í salnum, er ég ekki jafn vel að mér í þessum málum og samgöngunefndarmennirnir sjálfir, ég tala ekki um samgrh. sem ég gegni störfum fyrir nú um stundir.