Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 17:23:54 (5016)

2002-02-25 17:23:54# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir að hafa gert grein fyrir þeim fyrirvara sem hann setur við þetta nál. Mig langar kannski að spyrja hv. þm. að einu, hvort ég hafi skilið hann rétt að hann sé fylgjandi því að einkarétturinn verði afnuminn, einkarétturinn til póstdreifingar þegar fram í sækir og aðstæður verða til. Persónulega verð ég að segja að ég er því afskaplega fylgjandi. Ég held að sú þó litla samkeppni sem við sjáum á sviði póstdreifingar hafi skilað lægra verði til neytenda. Þetta er náttúrlega í afskaplega smáum mæli sem hægt er að miða við en við sjáum að verð á því sviði hefur lækkað.

Mig langar sem sagt að spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að því hvort hann geti ekki tekið undir með mér í því máli að þegar fram í sækir verði það markmið að þessi einkaréttur verði takmarkaður og helst afnuminn. Eins og stendur er það í rauninni ekki hægt og m.a. þess vegna tek ég undir þetta nál. Það er ákveðin þróun í gangi í Evrópu og innan EES-svæðisins sem við Íslendingar verðum einfaldlega að taka tillit til.