Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 17:25:28 (5017)

2002-02-25 17:25:28# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[17:25]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil kannski aðeins nefna að það er ekkert sem mælir því í mót að dregið verði úr þeim einkarétti sem nú ríkir. Hins vegar hafa verið í gildi reglur á Evrópska efnahagssvæðinu sem taka mið af því að hann verði ekki meiri að lágmarki en þar er kveðið á um, og ef ég man þær tölur rétt held ég að þar sé reyndar miðað við 350 g í hverju bréfi en ekki 250 sem hér er þó ætlunin að gera, og ganga að því leytinu til lengra en lágmarkið kveður á um. En það er ekkert sem mælir því í mót að gengið verði lengra.

Ég gerði í fyrirvara mínum grein fyrir þeirri afstöðu sem ég hef til þessa einkaréttar. Ég hef hins vegar bent á að hér er um almannaþjónustu að ræða og því tel ég mikilvægt að farið sé varlega í þessum efnum. Það er mat mitt að þessa þjónustu mætti bæta með því að draga úr einkaréttinum og gefa öðrum tækifæri á að spreyta sig en ég er hins vegar eins og fleiri sem telja nauðsynlegt að ganga varlega um þessar dyr því að tryggja verður að allur almenningur hafi aðgang að póstþjónustu. Þetta er mikilvæg þjónusta við almenning og því er nauðsynlegt að vanda til verka. Ég get þó tekið undir að það er ekki himinn og haf milli sjónarmiða okkar í þessum málum.