Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 17:28:17 (5019)

2002-02-25 17:28:17# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[17:28]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Menn hafa svolítið verið að horfa aftur í tímann í þessari umræðu og mig langar til að gera það í upphafi máls míns, horfa örlítið aftur í tímann.

Í stjórnmálum hafa áherslur breyst að verulegu leyti á síðustu 50 árum. Vinstri sinnaðir menn um miðja 20. öldina voru að sönnu hagsýnir en þeir voru líka mjög ídeólógískir eins og kallað var, létu stjórnast af hugmyndafræði. Styrkur hægri manna var að vissu leyti sá að þeir lögðu áherslu á hina praktísku hlið, stundum í ríkari mæli en vinstri mennirnir, og voru ekki fjötraðir af hugmyndafræðinni á sama hátt.

Nú hefur þetta snúist við. Það er vinstri sinnað fólk sem horfir á aðstæður, vegur og metur hlutina með tilliti til aðstæðna hverju sinni en hægri sinnarnir eru hinir ídeólógísku menn. Þeir láta stjórnast af hugmyndafræði og verstir eru þeir í Brussel. Þar ræður hugmyndafræðin algerlega ríkjum. Hugmyndafræði hægri manna birtist okkur m.a. í þessu frv. og í þeim kerfisbreytingum sem gerðar hafa verið á liðnum árum á póst- og símamálaþjónustu, ekki bara hér á landi heldur í allri Evrópu.

[17:30]

Í ársbyrjun 1998 tók gildi ný tilskipun um fjarskipti. Hún hafði verið birt nokkrum árum áður. Fjórum eða fimm árum áður hafði hún verið samþykkt en þá skyldi hún koma til framkvæmda. Íslendingar voru aldrei þessu vant nokkuð snemma á ferðinni og breyttu lögum sínum í árslok árið 1996. Ný lög um fjarskipti litu því dagsins ljós í ársbyrjun 1997. Þá var sundurgreind póstþjónustan annars vegar og símaþjónustan hins vegar, sem höfðu verið samreknar. Bæði þessi fyrirtæki, þ.e. báðar þessar greinar gömlu Póst- og símamálastofnunarinnar, voru gerðar að hlutafélögum. Síðan þekkjum við söguna. Menn fóru að undirbúa sölu Símans og skipuleggja Póstinn á nýjan hátt.

Í rauninni var þetta mjög hagkvæm rekstrareining við íslenskar aðstæður, að reka póst- og símaþjónustustofnanir víðs vegar um landið. Þetta var ágætt sambýli. Þetta er nátengd þjónusta. Eins og menn hafa oft bent á í tengslum við þessa umræðu þá hefur það hvernig fólk hefur samskipti sín í milli tekið breytingum. Þessi samskipti hafa færst frá bréfum yfir á internet og upp í háloftin. Allt rúmaðist þetta innan pósts og síma. Hvernig sem á málin var litið var þetta heppileg rekstrareining og alveg sérlega heppileg við íslenskar aðstæður. Út frá gamalli hugsun hagsýninnar hentaði þetta vel á Íslandi. En menn létu stjórnast af hugmyndafræðinni. Þessari starfsemi skyldi komið á markað. Hún skyldi greind niður í Póst annars vegar og Síma hins vegar. Síðan er haldið áfram og í greinargerð með þessu frv. er bent á stærsta glæp samtímans, þ.e. að niðurgreiða eina þjónustu með arðinum af annarri. Á bls. 16 í greinargerð með frv. er vísað í póstsendingar með dagblöðum, vikublöðum og tímaritum. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Niðurgreiðsla á umræddum sendingum sem fengin er með álagi á aðrar tegundir alþjónustusendinga verður að teljast óeðlileg. Þessu til frekari stuðnings er bent á að samgönguráðherra hefur hingað til ekki talið nauðsynlegt að beita ákvæði gildandi laga.`` --- Þetta í lokin er aukaatriði, en hitt þykir sérlega óeðlilegt að niðurgreiða eina sendingu með arðinum af annarri.

En er það endilega óeðlilegt? Ég held ekki. Eða finnst mönnum eðlilegt að íþyngja félagasamtökum, svo að dæmi sé tekið, þannig að þau geti ekki lengur komið skilaboðum til félagsmanna sinna? Þetta er líka spurning um lýðræði. Það hefur gerst í kjölfar þessara breytinga á rekstrarfyrirkomulagi pósts og síma og aðgreiningu þessara fyrirtækja að félagasamtök hafa ekki lengur efni á að senda félagsmönnum sínum félagsblöð. Þetta skiptir máli í lýðræðisþjóðfélagi.

Hér erum við aðeins að tala um millifærslur innan póstsins en áður fyrr niðurgreiddi síminn póstþjónustuna. Þar voru færðir fjármunir á milli og ekkert athugavert við það að mínum dómi. Það var hið besta mál. Síminn var reyndar svo aflögufær að auk þessara niðurgreiðslna skilaði hann milljörðum inn í ríkissjóð á hverju einasta ári. Ekkert athugavert við það heldur, að mínum dómi. Nú þykir þetta hinn versti glæpur og afleitt að einn þáttur niðurgreiði annan. Þessi hugsun birtist okkur alltaf í nýju formi, m.a. í þessu frv. hér.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta lagafrv. Það hefur hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í samgn., gert mjög vel. Hann hefur skilað ítarlegu áliti minni hluta samgn. og rakið athugasemdir sínar við umræðuna áðan. Hann bendir á hvernig póstþjónustunni hefur hrakað á liðnum árum. Hann bendir m.a. á að í ársbyrjun 2001 hafi starfsemi á pósthúsum á landsbyggðinni dregist saman, verið um 60% af því sem hún var 1999. (ÍGP: Hvers vegna?) Ja, hvers vegna? Ég held framsóknarmaður í salnum hafi spurt hvers vegna það hefði gerst. Vegna þessara kerfisbreytinga. Vegna þess að menn hafa verið að loka pósthúsum. Eftir því sem ég best veit er alla vega um það rætt í röðum póstmanna að fyrir dyrum standi enn frekari lokanir. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um hvað er á döfinni í þessum efnum. Í minnihlutaáliti hv. þm. Jóns Bjarnasonar er vísað í umsögn Póstmannafélags Íslands um þetta frv. en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Félagið hefur af því áhyggjur að verði frumvarp það sem hér um ræðir að lögum í óbreyttri mynd muni það enn þrengja að rekstrarstöðu fyrirtækisins og greiðslustöðu þess. Nú þegar hefur fyrirtækið framkvæmt ýmsar aðhaldsaðgerðir sem þýtt hefur niðurlagningu starfa og atvinnumissi fyrir félagsmenn, einkum á landsbyggðinni. Frumvarpsdrögin gefa á engan hátt til kynna að þeirri þróun verði snúið við.``

Það land sem sennilega hefur gengið einna lengst í einkavæðingu er ekki innan Evrópusambandsins heldur er það hinum megin á hnettinum. Það er Nýja-Sjáland. Einhvern tíma ætlaði ég að afla gagna um afleiðingar einkavæðingar innan heilbrigðisþjónustunnar á Nýja-Sjálandi. Ég sendi fyrirspurnir til að fá fram ýmsar upplýsingar. Þær upplýsingar fékk ég ekki. Hvers vegna halda menn að það hafi verið? Viðskiptaleyndarmál. Það voru viðskiptaleyndarmál. Spítalarnir höfðu verið gerðir að hlutafélögum og upplýsingar sem víðast hvar eru opinberar, um aðgerðir á sjúkrahúsum, voru orðnar viðskiptaleyndarmál.

Hvers vegna nefni ég þetta? Jú, vegna þess að þegar Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, þingflokkurinn, óskaði eftir upplýsingum um samninga sem Íslandspóstur hafði gert við fyrirtæki á landsbyggðinni var okkur sagt að þetta væri viðskiptaleyndarmál. Í þessum skilningi erum við komin til Nýja-Sjálands. Svar Íslandspósts var ósköp stutt, þrjár línur, við erindi okkar þar sem við óskuðum eftir að fá í hendur afrit af samningum sem Íslandspóstur hf. hefði gert við sjálfstæða rekstraraðila um starfrækslu póstþjónusunnar á landsbyggðinni. Svarið var þrjár línur, svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Íslandspóstur hf. mun ekki afhenda samninga er varða viðskiptahagsmuni fyrirtækisins nema til þeirra opinberu aðila sem fara með eftirlitsskyldu gagnvart fyrirtækinu, svo sem Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun.``

Við fáum ekki þessar upplýsingar. Hvernig skyldi þessu vera háttað í sjálfu musteri kapítalismans, í Bandaríkjunum? Þar eru upplýsingar af þessu tagi miklu opnari en þær eru hér á landi. Í rafmagnsgeiranum geta neytendasamtök, almenningur og fyrirtæki t.d. farið fram á að fá upplýsingar um samninga sem hér færu leynt og fara leynt í Evrópusambandinu. Ég held að enginn gangi eins langt og Íslendingar í því efni. Nýjasta dæmið um þá leynd eru fyrirhugaðir samningar eða samningsgerð varðandi Kárahnjúkavirkjun þar sem leyna á Alþingi og þjóðina upplýsingum um sjálfsagðar forsendur. Í Bandaríkjunum þekkist þetta ekki. Þar er hægt að krefjast slíkra upplýsinga hjá fyrirtækjum í almannaþjónustu. Að einhverju leyti byggist þetta á einokunaraðstöðu þeirra. Til þess að koma í veg fyrir að þau misnoti aðstöðu sína og vald er þeim gert að hafa allt sitt uppi á borði.

En þegar kemur að Íslandspósti hf. og óskað er eftir upplýsingum um slíka samninga fáum við svör eins og þessi. Það vantar ekki fínu orðin. Menn eru búnir að finna upp nýtt orð sem heitir alþjónusta. Ég veit ekki til hvers það á eiginlega að vísa. Það vefst fyrir mönnum. Þetta er nýtt orð yfir grunnþjónustu sem póstrekstraraðilum er gert að veita. En menn geta ekki dulist á bak við svona fín orð endalaust. Fólk spyr að sjálfsögðu að leikslokum: Hvernig þjónustu veitir pósturinn mér? Hvaða þjónustu fæ ég?

Niðurstaðan af þessum kerfisbreytingum öllum er sú að þjónustunni er að hraka. Það er að draga úr henni. Hún er að verða dýrari og henni er að hraka. Hvers vegna verður hún dýrari? Jú, að hluta til vegna þess að áður fyrr niðurgreiddi síminn póstinn. Að hluta til er það ástæðan. Þjónustunni líka víða að hraka vegna þess að verið er að loka póstútibúum. Mér finnst þetta hljóta að vera þær spurningar sem við spyrjum þegar við samþykkjum svo óskaplega fínt frv. til laga um póstþjónustu á Íslandi. Er það ekkert áhyggjuefni, þótt við fáum öll þessi fínu orð t.d. alþjónustu, að póstþjónustu í landinu skuli vera að hraka? Hvernig ætla ríkisstjórnin og fulltrúar stjórnarmeirihlutans að réttlæta slíkt?