Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 17:46:21 (5021)

2002-02-25 17:46:21# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[17:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt sannast sagna að enginn deildi um það að póstþjónustu hefur hrakað í landinu, enda kemur m.a. fram í skýrslum sem gerðar hafa verið að í ársbyrjun 2001 hafi starfsemi í pósthúsum á landsbyggðinni dregist saman og var þá um 60% af því sem hún var 1999. Póstþjónustan er einnig orðin dýrari og ég vék að því að ýmis félagasamtök hafa ekki lengur ráð á því að senda póst til félagsmanna sinna, dreifibréf og tímarit, félagsrit, vegna þess að þetta er orðið svo dýrt. Þetta er breyting sem hefur orðið, enda ekkert undarlegt því það komu verulegir fjármunir frá símahluta Pósts og síma sem niðurgreiddu póststarfsemina. Þetta er bara staðreynd.

Síðan skil ég ekki alveg þá hugsun um viðskiptaleyndarmálin. Ég geri mér alveg grein fyrir að Morgunblaðið, eins og hv. þm. nefndi, dreifir auglýsingum og það eru ýmsir sem standa þarna í samkeppni, en þarf viðskiptum og samkeppni alltaf að fylgja leynd? Hvað á að vera svona leynilegt við það að gera samning við þess vegna olíustöð eða verslun á landsbyggðinni um þjónustu? Hvers vegna á þetta að vera leynilegt? Af hverju má þetta ekki vera uppi á borði? Ég skil það ekki.