Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 18:03:52 (5025)

2002-02-25 18:03:52# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[18:03]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Jafnaðarmaðurinn sem síðast talaði og í gamla daga var kallaður krati og alþýðuflokksmaður var afar sanngjarn í ræðu sinni og hélt í raun og veru mjög skynsamlega ræðu, segi ég. En auðvitað er mjög viðkvæmt þegar verið er að breyta þjónustu Póstsins eins og gert er úti á landsbyggðinni. Og það er ákaflega létt að hræra í fólki og spila á tilfinningar þess. Við sem búum úti á landsbyggðinni vitum að hún á undir högg að sækja og þess vegna er óskaplega létt að tala eins og hv. þm. Jón Bjarnason talar gjarnan, á þeim nótum eins og verið sé að loka fyrir póstþjónustu, það sé bara verið að loka öllu og fólk sé í vandræðum með hvað það á að gera við póstinn sinn o.s.frv. Það er óskaplega létt að tala svona en það er afar óábyrgt. Menn þurfa þá að benda á ákveðnar lausnir í því sambandi.

Mér fannst líka mjög merkilegt að hlusta á hæstv. forsrh. sem minntist fornra kappa eins og Hannesar á Núpsstað og fleiri góðra manna sem stunduðu póstþjónustu í eina tíð við afar erfiðar aðstæður. Hjá Póstinum vinnur auðvitað mjög mikið af afar hæfu starfsfólki. Það eru miklar breytingar í samfélagi okkar og við stöndum frammi fyrir þeim. Ég sagði áðan í andsvari að þegar ég var t.d. að alast upp sem lítill strákur á Hvolsvelli töluðum við aldrei um pósthúsið heldur símstöðina. Á símstöðinni vann fjöldi kvenna við að svara og plögga inn svo að ég noti ungmennaorð, tengja inn línur til að fólk næði sambandi innan sveitar o.s.frv. Nú er þetta allt saman breytt og löngu liðin tíð. En pósthús eru víða um land, þau eru afar stór og þau voru byggð með tilliti til þeirrar miklu þjónustu sem var í eina tíð.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Kristjáns Möllers að ákveðin þjónustugreining hefur farið fram. Forsvarsmenn Póstsins leituðu logandi ljósi að meiri starfsemi inn í pósthúsið. Mönnum datt í hug, einmitt eins og hv. þm. Kristján Möller talaði um, ýmiss konar umboðsstarfsemi. Menn létu sér jafnvel detta í hug vídeóleigur, verslunarstarfsemi og þess háttar en þá komust forsvarsmenn Póstsins að því að þá væri hann farinn að keppa við heimamenn. Það var auðvitað ekki mikill bragur á því svo að ég vitni í orðalag sem hv. þm. tók sér í munn rétt áðan. En það er alveg ljóst að þessi greining fór fram.

Hv. þm. Kristján Möller benti líka á breytta og bætta þjónustu Póstsins. Auðvitað fylgja þessu öllu kostir og gallar en þegar upp er staðið er Pósturinn afar traust fyrirtæki og styrk stofnun.

Það hefur líka komið fram að gríðarlegar breytingar urðu á starfsemi pósthúsanna þegar aðskilnaður varð milli Pósts og síma. Þá datt niður um 40% starfsemi pósthúsanna og ekkert hefur komið í staðinn.

Ég sagði líka í stuttu andsvari mínu áðan að Pósturinn væri að tapa liðlega 100 millj. kr. á ári hverju. Þá er spurning hvort það fyrirtæki eigi að greiða niður, eins og við vorum að tala áðan um félagasamtök sem senda út dreifibréf og þess háttar, hvort það sé þess fyrirtækis, þ.e. Póstsins, að greiða niður þessa þjónustu. Ég held alls ekki. Hins vegar eru auðvitað möguleikar í gegnum ríkiskerfið til að styrkja eitthvað slíkt en það er ekki hægt að gera þær kröfur til Póstsins að hann greiði niður þessa starfsemi.

Við erum bundin alþjóðlegum samningum og árið 2006 verður einkarétturinn afnuminn af póstþjónustu á ýmsan hátt. Fyrirtækið er einmitt að búa sig undir það. Hv. þm. Kristján Möller talaði um það áðan að menn hefðu hugsanlega þurft að grípa til breytinga á fyrirtækinu fyrr en við lifum árið 2002 og það styttist auðvitað í árið 2006 og verið er að vinna að þessum breytingum.

Ég veit að hv. 5. þm. Norðurl. v., Jóni Bjarnasyni, gengur gott eitt til í þessari umræðu og hann talar t.d. um það að öllum notendum sé tryggð eins þjónusta. Það verður auðvitað afar erfitt í jafnstóru landi og Ísland er að öllum aðilum verði tryggð eins þjónusta. Ég bendi t.d. á að fyrir jólin setti Pósturinn upp litla afgreiðslu í Kringlunni til að létta undir á mesta álagstímanum. Fyrir jólin 2000 var Pósturinn mjög gagnrýndur fyrir það að honum tókst ekki til fullnustu það verkefni að dreifa öllum pökkum til landsmanna. Hins vegar tókst það afar vel árið 2001 og gerð var gagnger skipulagsbreyting á starfseminni til að svo mætti verða framvegis þannig að við eigum líka að gleðjast yfir því að það er virkilega verið að takast á við ýmis verkefni í þessu fyrirtæki. Jólapóstsdreifingin tókst t.d. mjög vel árið 2001. Að vísu er lítið talað um það vegna þess að þegar hlutirnir ganga upp tölum við yfirleitt ekki um þá en þegar okkur gengur hins vegar verr á einhverjum sviðum er meira talað um það.

Ég segi að póstþjónustan í landinu er afar traust og trúverðug. Hún á að vera það og það er líka ákveðin eftirlitsskylda með henni. Það kom fram að ákveðinnar óánægju gætti, t.d. í Varmahlíð í Skagafirði, og á þeirri óánægju var tekið. Miðað við það sem þingmaður í því kjördæmi segir, hv. þm. Kristján Möller, venjast menn þessum breytingum. Ef við skoðum nágrannalönd okkar á Norðurlöndum hafa orðið viðlíka breytingar á póstþjónustu þar eins og hjá okkur.

Við megum heldur ekki gleyma landpóstunum sem ekkert hefur verið talað um í þessari umræðu. Þeir aka pósti vítt og breitt um landið. Það hefur reyndar komið fram í umræðunni að núna er fimm daga póstdreifing algengari þar sem hægt er að koma henni við en landpóstarnir inna mjög mikilvægt starf af hendi og veita í flestum tilfellum virkilega góða þjónustu sem eftir er tekið. Við megum ekki stilla því þannig upp að hér sé verið að eyðileggja fyrirtækið eða það bjóði ekki upp á þá þjónustu sem því beri að veita. Ákveðnar breytingar á fyrirtækinu eru að eiga sér stað og mjög margar þeirra breytinga eru líka til góðs þó að þær reyni á margan hátt líka á tilfinningar fólks.

Eitt annað hefur heldur ekki verið rætt hérna. Fyrir líklega hálfu ári var tekin í notkun flokkunarvél sem flokkar bréf. Ætli þar sé ekki um 13 ársverk að ræða. Það er heilmikil fjárfesting sem er talin borga sig á þremur árum eða svo. Við getum auðvitað sett okkur upp á móti öllum þessum tæknilegu framförum og tæknilegu breytingum en við bara lifum í slíku þjóðfélagi og ég veit að hv. þm. Össur Skarphéðinsson getur tekið undir með mér --- hann fylgist svo grannt með ræðu minni --- að á sama hátt og við söknum gömlu símstöðvanna söknum við líka gömlu pósthúsanna.