Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 18:20:27 (5030)

2002-02-25 18:20:27# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, Frsm. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[18:20]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Æ ofan í æ gleyma hv. þingmenn, eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, því að póstþjónusta er bæði fólgin í að taka á móti pósti og afgreiða póst. Þegar póstmóttökustöðvum fækkar, þ.e. þjónusta á póstmóttökustöðvum verður minni, er náttúrlega um rýrnun á þjónustu að ræða. Þó að aðrir þættir eins og heimsending geti verið jákvæðir þá ber að hafa þetta í huga.

Ég kom hér upp til þess að leggja spurningu fyrir hv. þm. Mig minnir að hæstv. samgrh. hafi komið inn á það í ræðu að hann hefði lagt til við Íslandspóst að kanna hvort Pósturinn gæti aukið eða fært ný verkefni inn á póstmiðstöðvarnar þannig að ekki yrði eins brýn þörf á að loka pósthúsunum eða færa póstþjónustuna til, t.d. ef þangað yrðu færð verkefni. Þá var sérstaklega horft til opinberra verkefna, færslu á opinberum verkefnum úr stjórnsýslunni í Reykjavík, hvort sem væri frá Íslandspósti eða annarri opinberri stjórnsýslu, út til þessara staða til að styrkja þá og efla atvinnulífið þar. Ég vil inna hv. þm. eftir því, af því hann er líka í stjórn Íslandspósts, hvort hann geti upplýst hvort eitthvað hafi áunnist varðandi þær hugmyndir sem hæstv. samgrh. kynnti hér á þingi fyrr í vetur.

Eins langar mig að spyrja hv. þm. hvernig hann skilur þetta orðalag þar sem kveðið er á um alþjónustuna, að sama þjónusta skuli veitt öllum notendum sem búa við sambærilegar aðstæður: Á að skipta Íslendingum upp í þjónustuflokka?