Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 18:22:41 (5031)

2002-02-25 18:22:41# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[18:22]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er búinn að halda hér margar ræður (JB: Og góðar.) og fara í mörg andsvör. Flestar eru auðvitað góðar að hans mati. Ef við veltum fyrir okkur hvenær við eigum erindi á pósthús þá komum við aftur að því sem hv. þm. er búinn að tala mikið um, annars vegar til þess að fara með bréf og hins vegar til að sækja bréf, ef við þurfum að sækja það, pakka eða slíkt. Í flestum tilfellum getum við keypt frímerki og sett bréf í póstkassa og þurfum afar sjaldan að fara á pósthús til þess. Það er hægt að afgreiða þetta með allt öðrum hætti. Það má ekki gleyma því að það er ekki alltaf nauðsynlegt að fara með bréf á pósthús. Það má stinga bréfunum í póstkassann. Hv. þm. saknar víst póstkassa sem var hér á Hringbrautinni, sem er þar ekki lengur. Ég minnist þess úr ræðu hans frá því að kvöldlagi einhvern tíma í vetur að hv. þm. talaði um að þessi póstkassi væri þar ekki lengur sem hann hafði áður verið. Ég hef að vísu ekki kynnt mér hvort ... (JB: Ég held að hann sé kominn til baka.) Við getum þá glaðst yfir því. Hv. þm. upplýsir að hann hafi kannað málið og póstkassinn á Hringbrautinni sé kominn aftur á sinn stað.

Það gleður auðvitað íbúa Vesturbæjar að geta keypt sér frímerki, þess vegna í næstu verslun, póstlagt í þennan póstkassa og síðan fái íbúar í Vesturbænum póstinn sinn heim með Póstinum, böggla sem eru bornir út eða þá jafnvel ábyrgðarbréf og náttúrlega gleðjumst við yfir þeirri þjónustu.