Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 18:26:42 (5033)

2002-02-25 18:26:42# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg fallist á að grunnþjónustan skipti miklu máli. Ég get líka alveg tekið undir það að við getum saknað þess að ekki skuli vera almenningssími eða símaklefi á Hofsósi, Hvolsvelli eða hvar nú er. Ég veit reyndar að það er almenningssími á Hvolsvelli.

Við verðum líka að minnast þess að við búum í gjörbreyttu samfélagi. Meira að segja börnin okkar, hvort sem okkur líkar það betur er verr, eiga nú flest GSM-síma, hvað þá hinir fullorðnu. Þá er spurning hvort við eigum að láta svona símaklefa standa eða ekki. En við bætum okkur ekkert í þessari umræðu með slíku karpi.

Auðvitað saknar maður ákveðins tíma og margra hluta frá ákveðnum tímum en tíminn stendur ekki kyrr, þróunin heldur sífellt áfram. Það er sífelld þróun í öllum þessum málum. Þau fyrirtæki sem þróast ekki í takt við tímann verða eftir og hverfa á braut. Ég veit að allar þessar breytingar reyna mjög á fólk, bæði þingmenn og starfsfólk þeirra fyrirtækja sem þurfa að taka þátt í þessum breytingum. Þetta reynir allt saman á fólk. Ég held við bætum okkur ekki með þessu karpi. Það hefur verið skoðað mjög ítarlega hvort ekki sé hægt að koma meiri starfsemi inn á pósthúsin en raun ber vitni. Þau mál eru enn í skoðun, þar sem menn hafa í hyggju að breyta póstþjónustu eða pósthúsunum. Menn eru þar beinlínis að leita verkefna. Forsvarsmenn Póstsins eru galopnir fyrir því að auka þjónustuna þar sem hægt er.