Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 18:54:44 (5038)

2002-02-25 18:54:44# 127. lþ. 81.15 fundur 520. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir og náttúrustofur) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[18:54]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Það er kannski ekki mikið um þetta mál að segja við 1. umr. á hinu háa Alþingi. Þó verður maður að undrast það hversu langan tíma það tók hv. umhvrn. að fara yfir málið og koma því í þennan nýja búning því síðast var fjallað um það hér fyrir u.þ.b. tíu, ellefu mánuðum, og ekki eru breytingarnar veigamiklar.

Hins vegar kem ég hér upp aðeins til að velta vöngum vegna samhljómsins í málflutningi hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og Jóns Bjarnasonar sem hafa áhyggjur af því að verið sé að draga úr starfsemi ríkisvaldsins. Einhvern tíma voru íhaldsmenn með það á stefnuskrá sinni að draga úr umsvifum ríkisvaldsins en vera má að það sé allt breytingum undirorpið. Ég vil ekki ganga út frá því sem vísu að það sé slæmt í sjálfu sér að fela sveitarfélögunum þessi verkefni, auðvitað með tilstyrk og stuðningi ríkisvaldsins. Ég hefði einmitt haldið, eins og reyndar mátti skilja á máli beggja þessara hv. þm., að það væri einmitt vegna metnaðar sveitarfélaganna sem stutt hefur verið við sumar náttúrustofur meira en aðrar. Það hlýtur að auka metnað sveitarfélaganna og styrkja starfsemina að valdið sé í raun og veru heima í héraði og það þurfi að leggja fé til starfseminnar en að sjálfsögðu komi líka fé frá ríkisvaldinu. Það er auðvitað það sem hv. þm. þurfa að gæta að hér og sjá um að ríkið standi við sitt. Þá ætti ekki að vera nein ástæða til annars en að ætla að sveitarfélögin muni síðan líka standa við sitt, herra forseti.