Boðað frumvarp um stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 13:40:27 (5047)

2002-02-26 13:40:27# 127. lþ. 82.94 fundur 363#B boðað frumvarp um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[13:40]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er mjög athyglisvert að heyra ræður hv. alþingismanna stjórnarandstöðunnar í upphafi þessa þingfundar. Innihaldið kemur manni reyndar ekki neitt sérstaklega á óvart. Sérstaklega hafa hv. þm. Samfylkingarinnar ýjað að því um nokkra hríð að þeir mundu leggjast gegn veiðigjaldsfrv. ríkisstjórnarinnar og einhvern veginn hefur maður haft á tilfinningunni að það skipti nánast engu máli hvernig það frv. yrði, Samfylkingin mundi leggjast gegn því og hafa að engu afstöðu þriggja þingmanna flokksins í auðlindanefndinni þar sem þeir (Gripið fram í.) á þeim tíma tóku höndum saman með öðrum um sátt í atvinnugreininni. Ég heyri að hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur greinilega ekki verið sáttur við félaga sína þegar þeir komust að niðurstöðu í þeirri nefnd og það kannski skýrir afstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli á þinginu í dag.

Ég verð að segja að mér þykir afar leiðinlegt að þetta skuli vera afstaða þessa stjórnmálaflokks, að það skuli vera niðurstaða þeirra að standa ekki við það sem undir var ritað en eins og ég segi kemur það ekki alveg á óvart.

Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja um orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar en hann minnir mig einna helst á þjálfarann í kappliðinu sem ekki lét sér nægja að ráða hverjir væru í hans eigin liði heldur vildi hann líka ráða hverjir væru í liði andstæðingsins. (SJS: Þá mundi ganga betur.) Já, þá mundi ganga betur. Þetta lýsir eðli þessa ágæta íþróttamanns, hann telur að það mundi ganga betur ef hann fengi að ráða bæði sínum eigin málflutningi og málflutningi annarra, og hann ætti líka að ráða, ekki bara hvaða mál hann flytur á þinginu heldur líka málflutningnum og hvernig mál meiri hlutans, herra forseti, eru lögð fram.