Boðað frumvarp um stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 13:54:58 (5054)

2002-02-26 13:54:58# 127. lþ. 82.94 fundur 363#B boðað frumvarp um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það var mjög athyglisvert að heyra orð hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar um það hvernig hann telji að eigi að standa að því að kynna mál. Mér finnst alveg með eindæmum ef hv. þm. eru á móti því að frv. séu kynnt í fjölmiðlum sama daginn og á að leggja þau fram á Alþingi og ef þeir fyrtast við að ráðherrann skuli hafa fyrir því að senda þeim frv. samtímis og þau eru kynnt og láta þá vita að þau séu sett í hólfin þeirra til að þeir geti vitjað þeirra og til að þeir geti fylgst með því sem ráðherrann er að kynna. Ég skal bara muna þetta næst þegar ég legg fram frv. Ég skal ekki hafa fyrir því að setja það í hólfið hjá hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni. Og ég skal ekki hafa fyrir því að láta starfsfólk ráðuneytisins láta hv. þm. vita af því að það sé frv. í hólfinu hans ef hann telur það vera betri kynningu. Ég hef lagt mig fram um að hv. þm. fengju að fylgjast með þessu máli þegar það kæmi fram. Ég hef líka lagt mig fram um að hv. þingmenn og þingflokkarnir geti tekið þátt í þessu starfi.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kvartar yfir því að menn vilji ekki þiggja hjálp hans. En þingflokkur hans átti fulltrúa í endurskoðunarnefndinni og menn geta bara ekki gert kröfu um að allir séu alltaf sammála þeim, að þeir fái að skipa, herra forseti, í bæði liðin.