Póstþjónusta

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 13:58:22 (5055)

2002-02-26 13:58:22# 127. lþ. 82.1 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, JB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[13:58]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um hvort taka skuli upp nýyrðið ,,alþjónusta`` í stað orðsins ,,grunnpóstþjónusta``. Ég hef gagnrýnt hér að tekið skuli upp nýyrði og nýjar hugtakaskýringar án þess að fram hafi farið nákvæm skoðun á því hvernig þær falla að almennri orðnotkun og máltilfinningu landsmanna.

Það að leiða inn orðið alþjónusta í staðinn fyrir grunnpóstþjónusta býður heim þeirri hættu að endurskilgreina á ný þá vitund sem almenningur hefur um orðið grunnpóstþjónusta og þar eigum við á hættu að það eigi að skilgreina þessa þjónustu á lakari veg en almenningur hefur hingað til talið. Ég tel því, herra forseti, að það sé miklum mun betra að nota hér orðið grunnpóstþjónusta en beini að öðru leyti til hæstv. forseta nauðsyn þess að þegar um orðskýringar eða nýyrði inn í lagasetningu er að ræða fari fram samræmd vinna hjá málfarsnefnd eða öðrum utanaðkomandi aðilum um slíka nýyrðasmíð.