Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 14:43:55 (5075)

2002-02-26 14:43:55# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[14:43]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður er ég ekki einn um að hafa greinilega misskilið þennan texta, þ.e. að hafa skilið orðin ,,ekki sé ráðlegt að gera ráð fyrir að íbúum fjölgi``, þannig að þeim mundi fækka. Nú hefur hæstv. ráðherra upplýst okkur um að við textarannsóknir í ráðuneytinu hafi komið í ljós að þetta þýddi að þeim mundi hætta að fækka. Það er út af fyrir sig árangur.

En ég var einfaldlega að spyrja um hvað hefði orðið til þess að hæstv. ráðherra kaus að strika þessar dæmalausu setningar út, sem ég fagna út af fyrir sig að eru ekki í hinu þinglega skjali. Ég fagna því mjög. Ég spyr hvað það hafi verið og af hvaða tilefni það hafi verið. Ég tel að einhver óánægja okkar margra hafi ekki verið nægilegt tilefni til þess heldur að það hafi verið skoðun hæstv. ráðherra að efnislegar ástæður gætu gefið til kynna að okkur tækist að snúa þessari óheillaþróun við, sem ég veit að hæstv. ráðherra hefur fullan vilja til eins og við önnur í þingsalnum. En við sem búum á þessum svæðum viljum fá að vita hvort (Forseti hringir.) eitthvað geti að líta sem gefur okkur von til þess að þetta ástand fari að snúast við.