Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:05:45 (5082)

2002-02-26 15:05:45# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. hlýtur að vera ljóst að það er ekki mitt hlutverk út af fyrir sig að greina þingheimi frá afstöðu einstakra þingmanna. Menn einfaldlega gera það sjálfir. Það er þannig í þinginu að menn standa upp og greina frá viðhorfum sínum ef þeir telja tilefni til þess þannig að ég mun að sjálfsögðu ekki greina frá umræðum einstakra manna í þingflokki Sjálfstfl.

Það sem ég sagði hins vegar í ræðu minni áðan var að ég teldi að málið væri með þeim hætti að það legði mikla ábyrgð á þá sem störfuðu í iðnn. að gera á því breytingar í þeim anda sem ég nefndi til að tryggja að það næði þeim markmiðum sem ég teldi mjög mikilvæg, að búa svo um að forsendur væru fyrir því að snúa þeirri neikvæðu byggðaþróun við sem hefði orðið á tilteknum landsvæðum í landinu og ekki væri nægilega vel komið til móts við í þessari áætlun eins og hún lægi fyrir í prentuðu upplagi.