Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:12:53 (5088)

2002-02-26 15:12:53# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst út af fyrir sig ekki kyndugt að tillaga okkar varðandi námslánin komi fram. Mér finnst það heldur gott. Ég hefði að vísu kosið að hún hefði komið enn fyrr (SJS: Betra er seint en aldrei.) --- en betra er seint en aldrei eins og einn nefndarmanna grípur fram í, hv. þm. Steingrímur Sigfússon, sem sat í þessari nefnd með okkur hv. þm. Kristjáni Möller. Ég held að þetta sé einfaldlega mjög skynsamleg tillaga. Hún á sér raunverulega efnislega forsendu sem er sú að við komumst að þeirri niðurstöðu að eitt af því sem stæði landsbyggðinni mjög fyrir þrifum væri skortur á menntuðu fólki og til þess að reyna að hvetja framhaldsskólagengið fólk til búsetu á landsbyggðinni gæti þetta verið býsna góð hugmynd. Hér var ekki um að ræða einhverja hugmynd sem var gripin úr lausu lofti heldur lógískt framhald af þeirri fullvissu okkar að ein af forsendunum fyrir viðsnúningi í byggðamálum væri efling menntunar og fjölgun menntaðs fólks á landsbyggðinni.