Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:29:06 (5096)

2002-02-26 15:29:06# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var sérstaklega eitt sem hv. þm. hefur misskilið sem ég ætlaði að leiðrétta hérna. Hann talaði um að c-liðurinn sem getið er um á fyrstu síðu sem eins af meginmarkmiðum áætlunarinnar sé Akureyrartillagan. Það er nefnilega ekki. Það er sérstök tillaga eins og hv. þm. hlýtur að hafa séð þegar hann hefur lesið plaggið sem fjallar um að efla Eyjafjarðarsvæðið og taka það út sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið.

Hins vegar gengur c-tillagan út á að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust á landinu almennt og hafa mest aðdráttarafl. Þó að það sé ekki tilgreint vitum við nokkurn veginn um hvaða byggðarlög þar er að ræða. Og ég er eiginlega svolítið ánægð með að hv. þm. hafi skilið þetta svona og gefið mér tilefni til að koma hérna upp vegna þess að ég hef tekið eftir því að fólk hefur ekki tekið nógu vel eftir þessum c-lið í meginmarkmiðum áætlunarinnar en þarna er um kjarnatillögu að ræða.

Hv. þm. hafði mörg orð eins og vant er og m.a. taldi hann að Byggðastofnun hefði miklu minna fjármagni úr að spila en áður var en það er aldeilis ekki því að fjárveitingar til stofnunarinnar hafa verið auknar. Hún hefur verið að lána núna um tvo milljarða sem var fyrir ekki löngu aðeins um einn milljarður þannig að það er eins gott að halda því til haga. Svo kom hann því náttúrlega á framfæri með óbeinum orðum að hann hefur verið á móti því að flytja hana út á land og það kemur mér svo sem ekki á óvart. Það er sjaldan heill hugur á bak við málflutning hans.

Hann sagði að bara viljann vantaði til að efla Akureyri enn frekar en hv. þm. veit miklu betur því að Akureyri hefur verið stórefld af hálfu ríkisstjórnar með t.d. uppbyggingu háskólans, með Byggðarannsóknastofnun --- ég er búin með tímann. Ég held áfram að telja upp á eftir.